4.1.2022 9:41

Vinstri villa Ögmundar

Sé sagnfræðileg nákvæmni í nýju bókinni öll af þessum toga ber að lesa hana með miklum fyrirvara. Þarna fer Ögmundur einfaldlega með fleipur.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra, fór mikinn í kynningu á nýrri bók sinni fyrir áramót. Mátti skilja að í henni væri að finna uppgjör við menn og málefni eftir áralanga þátttöku hans í stjórnmálum.

Sérstaka athygli vakti að hann vill að nafni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG) verði breytt. Ögmundur var meðal lykilmanna við stofnun flokksins og rauf þar með samstöðu vinstri manna sem átti að mynda með því að stofna Samfylkinguna. Vildi Ögmundur ekki ganga í slíkan „krataflokk“.

Á forsíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 29. desember stóð:

„Ögmundur gagnrýnir harðlega undanslátt og kúvendingu í utanríkismálastefnu VG og þykir honum það vera tímanna tákn að Björn Bjarnason, „helsti forystumaður Nató-vinafélagsins Varðbergs“, skuli vera fenginn til að skrifa álitsgerð í umboði ríkisstjórnar VG um öryggismál á norðurslóðum.“

Sé sagnfræðileg nákvæmni í nýju bókinni öll af þessum toga ber að lesa hana með miklum fyrirvara. Þarna fer Ögmundur einfaldlega með fleipur. Eitt er að hann vilji þagga niður í þeim sem eru í Varðbergi á sama tíma og hann stendur með spjald fyrir framan breska sendiráðið til að krefjast málfrelsis og annars frelsis fyrir Julian Assange hitt er að ég hef ekki skrifað neina slíka álitsgerð fyrir ríkisstjórnina eða í umboði hennar. Full þörf væri þó á því miðað við æpandi þögn um þessi mál á vettvangi íslenskra stjórnmála.

1315441Morgunblaðið birti þessa mynd af  Ögmundi Jónassyni 20. desember 2021. Hann stendur fyrir framan breska sendiráðið til stuðnings Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.

Ef reynt er að geta sér til um hvað í þessum orðum Ögmundar felst er hann líklega að fjalla um það að 2. desember 2019 var mér falið í umboði utanríkisráðherra norrænu ríkjanna fimm, að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að skrifa skýrslu um norræn utanríkis- og öryggismál í sama anda og sú sem Thorvald Stoltenberg afhenti í febrúar 2009. Vinna mín tók mið af því að í nóvember 2009 var stofnað til norræns varnarsamstarfs, hins svokallaða NORDEFCO- samstarfs. Ég fjallaði því ekki um það sem Ögmundur kallar „öryggismál á norðurslóðum“ og Varðberg átti enga aðild að þessu verki heldur hafði ég samráð við 10 fulltrúa norrænu ríkisstjórnina efndi til um 80 funda í höfuðborgum landanna fimm og í Washington.

Í skipunarbréfinu var mælt fyrir um þrjú verkefni:

  • að fjalla um hnattrænar loftslagsbreytingar;
  • að fjalla um fjölþáttaógnir og netöryggi;
  • að styrkja og bæta fjölþjóðasamstarf innan ramma alþjóðalaga.

Í viðauka er að finna styttri kafla þar sem meðal annars er lýst þróun öryggismála frá birtingu Stoltenberg-skýrslunnar. Þá setti ég skýrsluna í samhengi við COVID-19 heimsfaraldurinn enda hefði hann áhrif á norræna og alþjóðlega samvinnu til skemmri og lengri tíma.

Skýrslan var birt í júlí 2020 og í september samþykktu utanríkisráðherrarnir að unnið skyldi að framkvæmd einstakra tillagna í henni. Hér má lesa skýrsluna á íslensku.

Að kalla þetta álitsgerð um öryggismál á norðurslóðum í umboði ríkisstjórnar VG og álykta síðan að vegna þessa verks sé óhjákvæmilegt fyrir VG að fella orðið „vinstri“ úr heiti sínu er ótrúverðugur boðskapur, svo að ekki sé meira sagt.