29.6.2024 10:33

Viner, Assange og Ögmundur

Þessari hlið á máli og málstað Assange er alls ekki haldið að þeim sem lesa eða hlusta á íslenska fjölmiðla.

Í vikuyfirliti um fréttir sem Katharine Viner, editor-in-chief, aðalritstjóri vinstrisinnaða breska blaðsins The Guardian birtir í dag (29. júní) ræðir hún sérstaklega um þann viðburð vikunnar þegar Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, varð frjáls að nýju miðvikudaginn 26. júní eftir 12 ára innilokun, þar af 5 ár í bresku fangelsi á meðan tekist var á um framsalskröfu Bandaríkjastjórnar vegna ásakana á hendur Assange fyrir njósnir.

Frelsið á Assange því að þakka að hann játaði á sig njósnir og voru brot hans felld niður fyrir utan eitt. Fyrir það var hann dæmdur í fimm ára fangelsi af bandarískum dómara á Kyrrahafseyjunni Saipan en refsingin var felld niður með vísan til setu Assange í breska fangelsinu.

Screenshot-2024-06-29-at-10.31.48

Katharine Viner rifjar upp að í leiðara The Guardian hafi staðið að aldrei hefði átt að ákæra Assange fyrir njósnir. Um leið og hún fagnar nú frelsi hans segir hún að það sé „ógnvekjandi fyrir þá sem helgi sig málstað frjálsra fjölmiðla“ að Assange hafi játað sig sekan um njósnir. Í lögunum að baki ákærunni séu engin ákvæði um að unnt sé að verjast með vísan til almannahagsmuna. Fræðilega geti játningin og dómurinn orðið bandarískum yfirvöldum hvatning til lögsókna á hendur fjölmiðlum.

Þessari hlið á máli og málstað Assange er alls ekki haldið að þeim sem lesa eða hlusta á íslenska fjölmiðla.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra, ritar til dæmis lofgrein um Assange í Sunnudagsblað Morgunblaðsins, sem kom út í dag. Ögmundur segir að „játning“ Assange nú sé „sú ein að hafa birt gögn sem áttu að fara leynt“. Þetta kemur ekki heim og saman við það sem aðalritstjóri The Guardian segir: Assange játaði á sig njósnir og var dæmdur fyrir þær. Hann gerði um þetta samkomulag við Bandaríkjastjórn. Þess vegna er einnig rangt sem segir í grein Ögmundar þar sem stendur: „Bandaríkjamenn höfðu með öðrum orðum ekki sitt fram og því til staðfestingar er að Julian Assange er laus úr haldi.“ Assange er einmitt laus úr haldi vegna þess að Bandaríkjastjórn hafði sitt fram og Katharine Viner óttast afleiðingar þess fyrir fjölmiðlafrelsið.

Á Eyjunni birtist ófrægingardálkur eftir nafnlausan höfund, Orðið á götunni. Föstudaginn 28. júní birtist þar hugleiðing um að rússnesku tölvuárásina á Árvakur fyrir viku megi rekja til þess að lokun íslenska sendiráðsins í Moskvu í fyrra „hafi beint kastljósi tölvuþrjóta, sem njóta velvildar Rússlandsforseta, að landinu og jafnvel megi búast við frekari árásum“ þaðan.

Í tilvitnuðu orðunum er rétt að Akira-tölvuþrjótahópurinn nýtur velvildar Pútíns. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) telur að frá því í mars 2023 þar til í þessum mánuði hafi Akira brotist inn í tölvukerfi rúmlega 250 fyrirtækja og haft um 42 milljónir dollara upp úr krafsinu með því að beita gíslatökuaðferðinni.

Að tengja eða afsaka árás rússneskra tölvuþrjóta á Árvakur eða Háskólann í Reykjavík við lokun sendiráðs Íslands í Moskvu er dæmigerð ímyndun til að koma ómaklegu höggi á utanríkisráðherra. Krafan um andvaraleysi gagnvart Rússum og ólund yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda einkennist af þörf fyrir að „njóta velvildar Rússlandsforseta“.