23.5.2020 10:50

Vinaleysi Kínastjórnar eykst

Nú herma fréttir frá Bretlandi að COVID-19 hafi orðið til þess að Boris Johnson vilji þrengja að Huawei við 5G-væðinguna í Bretlandi.

Menn þurfa ekki að fara á margar fréttaveitur í netheimum til að átta sig á því að viðhorfið til kínverskra stjórnvalda er víða mun neikvæðara nú en áður en COVID-19-faraldurinn setti heiminn á annan endann. Athygli beinist að verulegu leyti að samskiptum Kínverja og Bandaríkjamanna en vandi Kínastjórnar er mun djúpstæðari.

Kínverska þjóðþingið kom saman í vikunni og eitt fyrsta verk þess var að samþykkja einhliða lög sem herða tök Kínastjórnar í Hong Kong þvert á fyrirheit sem gefin voru þegar Bretar afhentu stjórnvöldum í Peking ráð yfir þessum gamla hluta heimsveldis síns þar sem efnahagur blómstraði í krafti frjálshyggju á sama tíma og örbirgð ríkti á meginlandi Kína undir stjórn kommúnista.

Mótmælin í Hong Kong í fyrra voru fleinn í holdi einræðisstjórnar kommúnista á meginlandinu. Þau grófu undan sjálfsöryggi hennar og stuðluðu að því að hert voru tökin á kínversku þjóðinni með rafrænu eftirliti og ofstjórn sem síðan nýttist til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 frá upphafsstaðnum í Wuhan. Í Hong Kong og Tævan kunnu menn að bregðast við þessari hættu eins og öðrum frá meginlandi Kína og tókst að halda útbreiðslu COVID-19 í skefjum. Í ljós kemur hvernig Hong Kong-búar snúast gegn nýju kínversku ofríkislögunum.

Cee4b36de9b74cf48f0e59c0640ac623_18Xi Jinping Kínaforseti frá 2012 gengur til þingfundar í maí 2020.

Ríkisstjórn Ástralíu hefur skipað sér í forystu fyrir kröfunni um óhlutdræga, sjálfstæða rannsókn á upptökum COVID-19. Málgagn Kínastjórnar brást við með því að lýsa Ástralíu sem „tyggjóklessu á skósóla Kína“. Þetta kalla Kínverjar „stríðsúlfa diplómatíu“ og segja hana nauðsynlega til að snúa þá niður sem ætli sér eitthvað upp á dekk gagnvart Kínverjum, þeir þurfi hvorki afskipti né leiðsögn frá neinum. Innan WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, nýta Kínverjar sér tök á forstjóra stofnunarinnar og ekki bætir framganga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta úr skák. Hann veikir stöðu andstæðinga Kínverja á þessum vettvangi með því að fara í fússi og skella á eftir sér.

Þegar Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, heimilaði í janúar að samið yrði við kínverska fyrirtækið Huawei um hlut í 5G-farkerfi í Bretlandi varð það gleðiefni fyrir þá sem sjá ekkert athugavert við að leiða inn í eitt viðkvæmasta grunnkerfi nútímasamfélaga fyrirtæki sem hótar viðskiptabanni í nafni annarra kínverskra fyrirtækja verði ekki samið við sig. Sýni það best tengslin við kínversk stjórnvöld.

Nú herma fréttir frá Bretlandi að COVID-19 hafi orðið til þess að Boris Johnson vilji þrengja að Huawei við 5G-væðinguna í Bretlandi. Það verði ekki hluti af farkerfi Breta lengur en til 2023.

Margir þingmenn breska Íhaldsflokksins snerust harkalega gegn upphaflegu Huawei-ákvörðun ríkisstjórnar flokks síns. Þeir líktu Huawei við „heróín“ og sögðu að vegna ákvörðunarinnar yrðu Bretar „algjörlega vinalausir“ þar sem þeir yrðu ekki lengur gjaldgengir í Five Eyes­-bandalaginu, samstarfsvettvangi njósnastofnana fimm vestrænna ríkja: Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Kanada.

Danska ríkisstjórnin hefur til þessa verið formlega hlutlaus gagnvart ákvörðunum fyrirtækja um 5G-viðskipti við Huawei. Nýlega boðaði hún hins vegar lagafrumvarp til að fá heimild til afskipta af ákvörðunum um þetta efni vegna þjóðaröryggis. Hér á landi er nauðsynlegt að taka til hendi af ríkisstjórn og alþingi í þessu efni og reisa varnarvirki til að íslenska ríkið endi ekki sem „algjörlega vinalaust“ í net- og þjóðaröryggismálum.