20.11.2020 9:26

Villur dr. Ólínu

Af þessum orðum dregur almennur lesandi væntanlega þá ályktun að verra sé að vera kallaður skoffín en skuggabaldur þótt svo sé augljóslega ekki.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir:

„Samkvæmt þjóðtrú eru skoffín afkvæmi refs og kattar, þar sem kötturinn er móðirin. Orðið er einnig notað í merkingunni 'fífl', 'kjáni', 'stelputrippi' og stundum sem gæluorð um börn. Skuggabaldur er afkvæmi sömu dýra en kemur úr móðurkviði refsins. Skuggabaldur er einnig notað yfir 'illan anda', 'myrkramann' og 'læðupoka'.“

Hvers vegna birtist þetta hér? kann einhver að spyrja. Ástæðan er grein dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur í Morgunblaðinu í dag (20. nóvember) sem svar við grein minni sem þar birtist fimmtudaginn 12. nóvember, Grillur dr. Ólínu og sjá má hér á síðunni.

Nú segir dr. Ólína: „Að auki notar hann [Björn] þá lúnu aðferð að leggja mér orð í munn. Segir mæðulega að ég hafi kallað sig „skoffín“ sem er þó fjarri sanni, enda eru skoffín og skuggabaldur ekki sama fyrirbærið þó að skylt sé skeggið hökunni.“

Af þessum orðum dregur almennur lesandi væntanlega þá ályktun að verra sé að vera kallaður skoffín en skuggabaldur þótt svo sé augljóslega ekki. Fyrir dr. Ólínu vakir að sverta mig fyrir að benda á hve ófrumlegur málflutningurinn er í nýrri bók hennar, raunar gamlar tuggur.

Í sömu efnisgrein og dr. Ólína áréttar að ég sé skuggabaldur en ekki skoffín sakar hún mig um „munnsöfnuð“, það er ljótt orðbragð, með því að nota orðið „grillur“ um þá kenningu að íslensk og bandarísk stjórnvöld hafi hindrað útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum eftir að Sjálfstætt fólk varð þar metsölubók. Í orðabók segir um kvenkynsorðið grillu: „fjarstæðukennd ímyndun; duttlungur; meinloka“.

Orðið er því kjörið þegar rætt er um að faðir minn eða Trimble, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hafi árið 1948 stöðvað útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Það er einfaldlega rangt.

BtgetFile.phpHér í þessu bréfi segir Trimble að hann hafi fengið upplýsingar um greiðslur frá bandarísku útgáfufyrirtæki til Halldórs Laxness  og hann hafi miðlað þessum upplýsingum til Bjarna Benediktssonar utanríkisáðherra í trúnaði en ráðherrann hafi sagt að þar sem um trúnaðarupplýsingar væri að ræða yrðu þær ekki notaðar í dómsmáli og spurt hvort aflétta mætti trúnaðinum. Ekki minnst einu orði á útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum.

TregetFile.phpHér er skjalið sem sýnir að Trimble, sendiherra Bandaríkjanna, telur að það kunni að styrkja sendiráðið í umræðum vegna Atómstöðvar Laxenss ef fyrir liggi að hann hafi svikið höfundarlaun vegna Sjálfstæðs fólks undan skatti. Hvergi er minnst á að hefta skuli útgáfu bóka Laxness,.

Morgunblaðið birtir fyrir dr. Ólínu tvö skjöl frá Trimble hún kallar „leyniskjöl“ til að gera þau ábúðarmeiri. Þessi stimpill er söluaðferð, upphaflega var hún notuð vegna þessara skjala árið 2004. Þetta eru ekki leyniskjöl heldur venjuleg bandarísk trúnaðarskjöl um utanríkismál, birt eftir ákveðinn árafjölda. (Skjölin eru birt hér með stuttum útdrætti.)

Þar spyr utanríkisráðherra Íslands hvort unnt sé að létta trúnaði af bandarískum höfundargreiðslum til Laxness svo að nota megi tölur í dómsmáli.  Hins vegar telur Trimble að það geti styrkt málstað Bandaríkjanna vegna útgáfu Atómstöðvarinnar að fyrir liggi að Laxness hafi svikið höfundarlaun vegna Sjálfstæðs fólks undan skatti.

Skjölin sýna svart á hvítu að hvergi er lagt á ráðin um aðgerðir gegn útgáfu á bókum Laxness í Bandaríkjunum. Málið sneri að gjaldeyris- og skattgreiðslum.

Vegna Atómstöðvarinnar og útgáfu hennar utan Íslands var enginn hneykslaðri og reiðari en Kristján Albertsson. Hafði hann oft dapur orð á henni við mig. Kristján skrifaði á sínum tíma ritdóminn fræga um Vefarann mikla frá Kasmír. Hóf Kristján hann með þessum orðum: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sém ris eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára!“