Villandi þjóðskrá
Hlýtur þessi munur á raunverulegum íbúafjölda landsins og þeim fjölda sem skráður er í þjóðskrá að hafa verið athugunarefni innan opinbera kerfisins.
Morgunblaðinu í dag (23. nóv.) birtist frétt í tilefni af því að Hagstofa Íslands sagði í liðinni viku frá því að 1. janúar 2021 hafi 359 þúsund manns búið hér á landi eða um tíu þúsund færri en hagstofan hafði áður áætlað.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, vakti athygli blaðamannsins á þessu og sagði mismuninn liggja í talningu hagstofunnar á brottfluttum erlendum ríkisborgurum. Þeim væri ekki skylt að skrá brottför, er þeir flyttust af landinu og teldust með sem íbúar þótt eir byggju ekki hér.
Bendir Erna Björg að miðað við þetta sé íbúðaþörf út frá íbúafjölgun því hugsanlega ofmetin. Hér sé um ríflega tvöfaldan íbúafjölda Seltjarnarness að ræða.
Jafnframt kemur fram að skráning á starfandi erlendum ríkisborgurum og atvinnulausum samræmist heldur ekki fjöldanum sem hafi verið skráður inn í landið.
Mynd mbl.is
Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Hlýtur þessi munur á raunverulegum íbúafjölda landsins og þeim fjölda sem skráður er í þjóðskrá að hafa verið athugunarefni innan þess opinbera kerfis þar sem til dæmis er fylgst með fjárgreiðslum úr opinberum sjóðum sem reistar eru á rétti tengdum skráningu í þjóðskrá en hverfur sé ekki lengur um búsetu í landinu að ræða.
Í frétt Morgunblaðsins er velt upp spurningum um hvaða áhrif það hefur á fasteignamarkaði hafi eftirspurn þar verið ofmetin vegna rangra rauntalna um fjólda fólks í landinu.
Þetta er aðeins ein hlið þessa máls. Hvað með rétt til hvers kyns tryggingabóta? Nægir að komast á þjóðskrá og hverfa síðan af landi brott til að njóta félagslegra réttinda sem því tengjast?
Fjöldi erlendra ríkisborgara í landinu er sagður um 60.000. Er þar átt við þá sem raunverulega dveljast hér eða þá sem skráðir eru í þjóðskrá?
Íslenska kennitalan sem fæst með skráningu í þjóðskrá er ekki síður mikilvæg eign en íslenska vegabréfið sem fæst með ríkisborgararéttinum.
Á alþingi ganga þeir fram með offorsi sem heimta vald til að gjaldfella ríkisborgararéttinn með illa ígrunduðum ákvörðunum.
Hefur einhver þingmaður kannað hvort þjóðskráning sé misnotuð? Þar er verk að vinna fyrir þá sem vilja gagnsæi á þessu sviði og tryggingu gegn því að réttindi tengd skráningu hér á landi séu misnotuð.