23.9.2021 10:10

Villa Viðreisnar

Allt tal Viðreisnar um evruna og aðildina að ESB er einhver mesta furðusaga þessarar kosningabaráttu.

Kjarni ESB-boðskapar Viðreisnar er að allt sé óvíst um aðild að ESB. Hún komi ef til vill til álita að mörgum árum liðnum enda þurfi að breyta stjórnarskránni og leggja auk þess fyrir þjóðina spurninguna um hvort sækja eigi um aðild. Á hinn bóginn megi lina þjáningarnar af veru utan ESB strax með því að taka upp evruna strax. Látið er eins og það sé einfalt úrlausnarefni og vísað til Danmerkur og Króatíu

Þegar Maastricht-sáttmálinn var gerður settu tvær ESB-þjóðir fyrirvara vegna evrunnar, Bretar og Danir. Bretar hafa nú yfirgefið ESB en Danir eru aðilar með fleiri gömlum fyrirvörum en snerta evruna. Danska ríkisstjórnin vildi láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort innleiða ætti evruna. Það var fellt og danskir stjórnmálamenn sem reyndu að fá þjóðina til að falla frá evru-fyrirvaranum segja í einkasamtölum að þeir láti aldrei hafa sig að slíku fífli aftur. Danir tengja krónuna við evru af því að það hentar efnahag þeirra.

Hr-5-800x450Króatía gekk í ESB árið 2013 og vildi strax fá evru-aðild. Líklega kemur hún til sögunnar 2023.

Króatía varð sjálfstætt ríki árið 1994 og tengdi þá gjaldmiðil sinn þýska markinu og síðan evrunni þegar hún kom til sögunnar. Það eru því söguleg og pólitísk rök tengd sérstöku sambandi Króata og Þjóðverja við sjálfstæðið 1994 sem veldur stöðu evrunnar í Króatíu. Eftir að Króatar gengu í ESB 1. júlí 2013 vildu þeir innleiða evruna formlega sem fyrst en fengu ekki aðgang að gjaldmiðlasamstarfi evrulandanna fyrr en í júli 2020, sjö árum eftir aðild að ESB og vonar forsætisráðherra landsins að evran verði innleidd 1. janúar 2023.

Í raun eru engin haldbær rök fyrir stjórnmálamenn á Íslandi að setja sig í spor Króata þegar rætt er um afstöðu þeirra til ESB og evrunnar. Króatar töldu sér lífsnauðsynlegt til að öðlast viðurkenningu sem þjóð meðal sjálfstæðra þjóða að hljóta aðild að ESB og vegna þess hve evran skipti þá miklu af sögulegum ástæðum hafa þeir sótt fast að geta sem fyrst uppfyllt skyldu sína um að innleiða hana. Það tekur þá að minnsta kosti 10 ár.

Allt tal Viðreisnar um evruna og aðildina að ESB er einhver mesta furðusaga þessarar kosningabaráttu. Á henni er önnur hlið en hér er lýst og er hún síst betri þar sem hún snýr að því að sverta sem mest þann árangur sem hér hefur náðst við stjórn efnahagsmála og gera lítið úr góðum horfum í þeim efnum, þær rætist aldrei nema evran komi til sögunnar.

Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sagði við Seðlabanka Íslands fyrir 20 árum að fastgengisstefna stjórnvalda (sem afnumin var í mars 2001) hefði ýtt „undir fjármagnsflæði til landsins og þar með viðskiptahallann því markaðsaðilar vanmátu líkurnar á gengisfellingu“. Að auki virtist kenningin um hagkvæm myntsvæði benda til þess að fljótandi gengi hentaði Íslandi betur en fast gengi. Upptaka verðbólgumarkmiðs og afnám vikmarka krónunnar hefði því verið heppileg stefnubreyting.

Það eru einfaldlega engin skynsamleg rök fyrir meginstefnumiði Viðreisnar og í sjálfu sér dapurlegt að stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega skuli tala um að framkvæmd stefnu sem reist er á falsrökum sé skilyrði þeirra fyrir aðild að ríkisstjórn!