27.6.2021 11:26

Víkingavinsældir vaxa

Án framlags Snorra skorti heimsmenninguna þá fjölbreytni sem hann lagði grunn að með verkum sínum. Þá væru heimildir um norrænu goðafræðina og víkingatímann fátæklegar.

Nú þegar líf án sóttvarna dafnar hér á ný og miklar vonir eru bundnar við að ferðaþjónusta minnki atvinnuleysi á skömmum tíma vakna enn á ný spurningar um hvað sé í boði fyrir utan náttúruperlunnar og eldgos. Er lögð nægileg rækt við að kynna það sem máli skiptir þegar litið er til framlags þjóðarinnar til líffræðilegs fjölbreytileika í víðasta skilningi? Hann snýst um fleira en plöntur og dýr. Þar skiptir menning, búseta og nýting lands ekki minna máli.

Það dregur mjög úr fjölbreytileika fyrir ferðamenn að heyra að enska er ekki aðeins töluð við þá heldur bera sífellt fleiri fyrirtæki ensk nöfn. Auglýsingar í íslenskum dagblöðum birtast í meira mæli á ensku, til dæmis auglýsing um sænskt hágæðarúm. Hvers vegna? Koma útlendingar hingað til að kaupa þau?

Brátt verður fullkomin aðstaða til að sýna handritin í nýju húsi íslenskunnar. Þar verður unnt að kynnast rótum íslenskrar tungu og menningar, því sem gefur Íslendingum innra þrek til að stuðla að fjölbreytni. Samhliða undirbúningi á sýningu og starfsemi í nýja húsinu er unnið að rannsóknum á ritmenningu íslenskra miðalda að Odda á Rangárvöllum, á Þingeyrum í Húnaþingi og Staðarhóli í Dölum, fornum ritmenningarstöðum. Þessar rannsóknir sækja fyrirmynd til þess vísindastarfs sem unnið hefur verið í Reykholti í Borgarfirði, höfuðbóli Snorra Sturlusonar.

1280px-Reykholt_04Frá uppgreftri fornleifa í Reykholti í Borgarfirði

Án framlags Snorra skorti heimsmenninguna þá fjölbreytni sem hann lagði grunn að með verkum sínum. Þá væru heimildir um norrænu goðafræðina og víkingatímann fátæklegar. Á þeim grunni sem Snorri lagði hefur risið enn stærri bygging en hugur okkar megnar að skilja. Enn skortir hér safn sem sýnir þó ekki væri nema brot af þessari arfleifð Snorra. Hugmyndir eru um að það verði í gamla héraðsskólahúsinu í Reykholti sem gengi þá allt í endurnýjun lífdaga og yrði segull í safnaflóru landsins, yki enn á fjölbreytnina.

Sé það skoðun einhverra að áhugi á víkingatímanum minnki eftir því sem árin líða er það misskilningur.

Í grein sem Jeanette Varberg, museumsinspektør við danska Þjóðminjasafnið, Nationalmuseet, skrifar nú um helgina í Jyllands-Posten segir hún að víkingarnir hafi aldrei verið vinsælli en á líðandi stundu. Þetta megi sjá af stórbrotnum þáttaröðum, kvikmyndum, bókum og leikjum sem taki mið af norrænum vígamönnum fyrri alda.

Hún segir að vegna þess hve víkingasýning danska Þjóðminjasafnsins sé vel sótt hafi verið ákveðið að endurnýja hana með nýfundnum munum og á grundvelli nýrra rannsókna og þekkingar. Það sé þó ekki aðeins í Kaupmannahöfn sem kynnast megi víkingum og sögu þeirra í nýrri umgjörð. Fyrir fáeinum dögum var opnuð stór víkingasýning í Historiska Museet í Stokkhólmi. Svíar segja að þetta sé stærsta víkingasýning veraldar. Þá verður víkingasýning opnuð á næstunni í Osló.

Jeanette Varberg segir að í löndunum þremur eigi söfn einstakar víkingaminjar og nú verði þær samtímis til sýnis „så hele verden kan se med“ segir hún.

Þetta framtak í norrænu höfuðsöfnunum þremur á að verða okkur Íslendingum hvatning að leggja aukna rækt við þennan arf okkar, þjóðmenningunni til eflingar og heiminum til fróðleiks.