9.10.2023 8:31

Vígamenn Hamas rjúfa frið

Þetta eru ógnvænlegir atburðir sem enginn veit hvernig enda. Ísraelskir hermenn berjast enn við vígamenn Hamas á ísraelsku landi.

Þegar Egyptar og Sýrlendingar réðust á Ísraela fyrir 50 árum og hófu Yom Kippur-stríðið 6. október 1973 fóru herir þeirra inn yfir landamæri Ísraels og Ísraelsher snerist til varnar. Barist var til 25. október 1973. Ísraelar áttu undir högg að sækja í upphafi enda um skyndiárás að ræða. Þeir sneru hins vegar vörn í sókn og í lok átakanna höfðu Ísraelar endurheimt land sem þeir misstu í upphafi.

Laugardaginn 7. október 2023 var síðan ráðist inn í land Ísraela að nýju en undir allt öðrum formerkjum en fyrir 50 árum þótt markmiðið væri það sama, að valda Ísraelum sem mestu tjóni og grafa undan tilvist ríkis þeirra.

Þeir sem þekkja til í Ísrael segja að áhrif árásar hryðjuverksamtakanna Hamas núna hafi miklu dýpri sálræn áhrif og sé meira áfalla fyrir ísraelska borgara en skyndiárás Egypta og Sýrlendinga árið 1973. Þá hafi verið um hefðbundin átök milli herja að ræða í Gólan-hæðum og á Sinai-skaga, fjarri þéttbýli. Að þessu sinni hafi árásin beinst að almennum borgurum og vígamennirnir hafi sótt gegn þeim til að drepa sem flesta, til dæmis á friðsamlegri tónlistarhátíð. Þeir skutu á almenna borgara á götum úti í ísraelskum bæjum og tóku með sér konur og börn blóði drifin inn yfir landamærin í Gaza.

DownloadHryðjuverkið kallar árásir yfir Gazaborg.

Friðarsamningar eftir stríðið 1973 drógu dilk á eftir sér. Öfgafullir íslamistar myrtu Anwar Sadat, forseta Egyptalands, 6. október 1981, vegna andstöðu þeirra við friðarsamning sem hann gerði við Ísraela. Friðarsamningarnir sem kenndir eru við Osló og ritað var undir árið 1993 voru liður í ferli sem hófst 20 árum áður. Ytzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, ritaði undir þá. Laumorðingi, öfgafullur Ísraeli, myrti Rabin á friðarsamkomu í Tel Aviv 4. nóvember 1995, hann hefði gefið of mikið eftir gagnvart Palestínumönnum.

Nú eiga Ísraelar ekki í höggi við heri og ríki eins og 1973 heldur við hryðjuverkamenn sem engu eira. Bent er á að í 15 ár hafi Hamas-liðar vitað að Ísraelsstjórn vildi ekki binda enda á stjórn þeirra á Gaza. Ísraelskir hermenn hefðu til dæmis aldrei ráðist inn í kjallara Shifa-sjúkrahússins í Gazaborg sem hýsir yfirstjórn Hamas í stríðsátökum. Þá hefðu launmorðingjar ísraelsku leyniþjónustunnar, Mossad, aldrei drepið neinn úr leiðtogahópi Hamas sem njóta lífsins og allra gæða þess í Doha sem góðir gestir stjórnar Qatars. Frá 2008 er það sagt hafa verið ráðandi sjónarmið meðal ísraelskra stjórnvalda að líða Hamas að ráða á Gaza og hólmlendunni með öllum sínum vandamálum.

Með þessu tóku ísraelsk stjórnvöld áhættu sem nú breytist í meiri harmleik fyrir almenna borgara landsins en þeir hafa áður kynnst. Ísraelar töldu sér trú um að almennir borgarar gætu lifað eðlilegu lífi í öryggi í nágrenni Gaza. Margþætt öryggisnet landsins tryggði þó ekki viðunandi vörslu þar eins og nú hefur sannast. Þetta kann að reynast pólitískur dauðadómur yfir Benjamin Netanyahu og stjórn hans. Hún hóf feril sinn með því að splundra ísraelsku samfélagi og sýna á því snöggan blett sem ekki duldist Hamas eða öðrum óvinum Ísraels.

Þetta eru ógnvænlegir atburðir sem enginn veit hvernig enda. Ísraelskir hermenn berjast enn við vígamenn Hamas á ísraelsku landi. Aðrir óvinir Ísraels bíða átekta. Ástandið þarna verður þó aldrei eins og áður en illvirkin voru framin.