Viðvörunarljósin blikka
Þar á í raun ekkert að koma á óvart því að á Keflavíkurflugvelli hefur undanfarin ár verið búið að nýju í haginn fyrir aðgerðir og eftirlit sem héðan hefur verið stundað áratugum saman.
Það var skondið að fylgjast með því að kvöldi mánudagsins 9. desember að engu var líkara en þá hefði runnið upp fyrir fréttamönnum ríkisútvarpsins að miklar breytingar í alþjóðlegum öryggismálum hafa að leitt til aukinna hernaðarlegra umsvifa á Keflavíkurflugvelli.
Þetta hefur gerst stig af stigi á undanförnum 10 árum frá því að NATO breytti um varnarstefnu og lagði að nýju áherslu á heimavarnir aðildarríkja sinna í stað þess að láta að sér kveða á fjarlægum slóðum eins og í Afganistan.
Ákvörðunina á vettvangi NATO mátti rekja til hernáms Rússa á Krímskaga og tilrauna til að beita hervaldi í því skyni að leggja undir sig landsvæði í Úkraínu.
Það lá í hlutarins eðli að endurnýjuð áhersla á hlutdeild ríkjanna í Norður-Ameríku, Bandaríkjanna og Kanada, í vörnum Evrópu myndi endurvekja þörfina á öryggisgæslu á siglingaleiðunum yfir Norður-Atlantshaf.
Þá hefur orðið sú breyting frá því sem áður var að Norður-Íshafið hefur opnast vegna ísbráðnunar og þar hafa Rússar og Kínverjar tekið höndum saman um margvísleg verkefni sem leitt hafa til samstarfs þeirra í öryggismálum á norðurslóðum.
Varðstaða við bandarískt liðsflutningaskip í höfninni í Narvik í Norður-Noregi.
Allt leiðir þetta til þess að meiri þörf verður fyrir aðstöðu í hernaðarlegum tilgangi hér á landi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir birti fimmtudaginn 28. nóvember samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum þar sem litið er yfir það sem gerst hefur í þeim málum undanfarin ár.
Þegar það er allt dregið saman blasir við skýr mynd af breytingum á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni hans sem hvorki stjórnmálamenn né fjölmiðlamenn hafa veitt verðuga athygli. Þar á í raun ekkert að koma á óvart því að á Keflavíkurflugvelli hefur undanfarin ár verið búið að nýju í haginn fyrir aðgerðir og eftirlit sem héðan hefur verið stundað áratugum saman.
Nýmælið er að aðgerðastjórn innan lands er á hendi íslenskra stjórnvalda og þar gegna starfsmenn landhelgisgæslunnar lykilhlutverki. Þá er skipulag á eftirlitsstarfinu héðan á þann veg að hér dvelst ákveðinn hópur fólks tímabundið og sinnir hernaðarlegum verkefnum sínum en hefur ekki fasta búsetu í nokkur ár. Í þriðja lagi hafa siglingar vegna liðsflutninga yfir N-Atlantshaf færst norðar en áður því að ætlunin er að nýta aðstöðu í Narvik í N-Noregi til að taka á móti mönnum og tækjum sem færu þaðan til nýju NATO-ríkjanna, Svíþjóðar og Finnlands. Í fjórða lagi er áherslan á flughernað af hálfu NATO í hánorðri meiri en áður eins og margar æfingar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sýna fyrir utan að þrisvar sinnum hefur bandaríski flugherinn nýtt Keflavíkurflugvöll til æfinga fyrir fullkomnustu sprengjuþotur sínar, B-2 Spirit.
„Þegar við lítum í kringum okkur þá er öll umræða, viðbúnaður og undirbúningur töluvert lengra komin heldur en hér á Íslandi. Ég held að við þurfum að spýta í lófana með það og átta okkur á því hvað er að gerast í kringum okkur, og að við erum ekki ónæm fyrir því sem er að gerast,“ sagði Þórdís Kolbrún í ríkissjónvarpinu 9. desember.
Sé ekki mótuð skynsamleg og ábyrg stefna varðandi öryggi þjóðarinnar í stjórnarmyndun í núverandi óvissu valda stjórnmálamenn ekki verkefni sínu.