20.6.2023 9:48

Viðvörunarljós í ferðaþjónustu

Það vita allir sem skoða þróun íslenskrar ferðaþjónustu hvert stefnir. Ætla menn að bíða þar til upp úr sýður eins og í útlendingamálunum? 

Árið 1982 gaf Bandaríkjamaðurinn John Naisbitt (1929-2021) út bókina Megatrends: Ten New Directions Transforming Our Lives. Þar spáði hann um framtíðina eftir tæplega 10 ára rannsóknir á þjóðfélagsstraumum. Bókin var í tvö ár á metsölulista The New York Times og trónaði þar löngum efst. Bókin kom út í 57 löndum og seldist í meira en 14 milljónum eintaka.

Nýjustu tölur um fjölda ferðamanna hér og þróun ferðaþjónustunnar benda til stöðugrar aukningar í greininni. Erlendir ferðamenn á landinu voru 720 þúsund á fyrstu fimm mánuðum ársins og hafa ekki verið fleiri á því tímabili frá árinu 2018. Sé litið á tólf mánuði, heilt ár, frá apríl 2022 til mars 2023, hafa tekjur af erlendum ferðamönnum tvöfaldast á milli ára úr 248 milljörðum íslenskra króna í 490 milljarða króna.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og fyrrverandi þingmaður VG, ræðir þessa þróun í grein á visir.is mánudaginn 19. júní og segir undir lok hennar að í ferðaþjónustu megi ekki hafa að leiðarljósi þá einföldu kenningu markaðsfræðinnar að „fá sem flesta ferðamenn hingað og fá sem mest út úr þeim“. Þetta sé „gamaldags gleypigangur, laus við virðingu sem gestum ber“. Þá felist „lítil reisn í að útbúa einhvers konar gerviheim nálægt aðalflugvellinum er hentar hraðsoðinni viðtöku sem flestra gesta á sem stystum tíma“.

Ari Trausti segir að fleiri en nokkru sinni lýsi „eftir þolmörkum í ferðaþjónustunni og stýritæki (-tækjum) svo koma megi ferðaþjónustunni til sem mestrar sjálfbærni og halda henni sem slíkri í takt við vöxt og þróun samfélagsins.“ Hann bendir hins vegar á að nú um stundir sé „hraði uppbyggingar, og væntingar margra, í litlu samræmi við nauðsynlega sýn og stefnu“.

Thjonusta_heroÞessi kynningarmynd birtist hjá þjóðgarðuinum á Þingvöllum. Það er sjaldgæft að svo fáir séu á ferli í Almannagjá. Fjölmenni er tekið að fæla ferðamenn frá náttúruperlum.

Eiríkur Hreinn Helgason, leiðsögumaður með meiru, hefur undanfarið sagt frá ferðalagi sínu um eyjarnar fyrir norðan Skotland á FB-síðu sinni. Mánudaginn 19. júní var hann á The Isle Of Bressay. Hann segir ·

„Á hótelinu sem við vorum á á Bressay voru Eldriborgarar, hjón að frílysta sig.

Þau voru nýlega komin úr siglingu á skemmtiferðaskipi sem sigldi til Íslands og svo var farinn hringur um landið með skipinu.

Þau sögðu tvo síðustu dagana á Íslandi hafa verið „horrible“.

Var það veðrið? vildi ég vita.

Nei, veðrið var frábært en allt gersamlega að drukkna í túrisma, ferðafólk alls staðar og bara leiðinlegt. Crowded!

Massatúrismi. Mæltu ekki með þeirri upplifun.

Ég hef svosem heyrt þetta á fólki sem hef gædað eða keyrt heima – rauð ljós blikka að mínu mati.

Áfram Ísland.“

Það vita allir sem skoða þróun íslenskrar ferðaþjónustu hvert stefnir. Ætla menn að bíða þar til upp úr sýður eins og í útlendingamálunum? Eða koma skikki á hlutina? Tímabært er að líta í eigin barm til að bjarga fjöregginu. Fiskinum var bjargað með lögum sem sett voru fyrir 40 árum. Rekstur þjóðarbúsins batnaði. Nú verður að líta til ferðaþjónustunnar svo að útsæðið verði ekki étið.