Viðvörun frá Mette
Af hverju spyr enginn þær, sem nú standa glaðbeittar og segjast ætla að mynda ríkisstjórn á Íslandi fyrir áramót, hvaða skoðun þær hafa á þessari stöðu og hvernig þær ætla að taka á henni?
Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana hefur í samtölum við fimm dönsk blöð, Politiken, Berlingske, Kristeligt Dagblad, Jyllands-Posten og Weekendavisen, fjallað um alþjóðamál og sagt:
1. Staðan í alþjóðamálum er verri en hún hefur nokkru sinni kynnst.
2. Nú hefur komið til sögunnar nýtt öxulveldi illskunnar: Rússland, Kína, Íran og Norður-Kórea með stjórnendum sem hata vestrið.
3. Stríðinu lýkur ekki með friðarsamningi í Úkraínu.
Nú hafa þær rætt saman um stjórnarmyndun í tíu daga án þess að nokkuð sé fast í hendi. Veit einhver hvað þær ætla að gera í öryggismálum þjóðarinnar? (mynd;mbl,is/Karitas).
Danska ríkisútvarpið, DR, bar föstudaginn 13. desember þessar fullyrðingar undir þrjá sérfræðinga: Michael Zilmer-Johns, sendiherra til margra ára meðal annars gagnvart NATO. Hann var formaður í starfshópi á vegum ríkisstjórnarinnar um öryggismál; Rasmus Brun Pedersen, ph.d. og lektor í alþjóðastjórnmálum við Institut for Statskundskab hjá Árósarháskóla, og Andreas Bøje Forsby, sérfræðing í utanríkis- og öryggismálastefnu Kína hjá Dansk Institut fors Internationale Studier (DIIS).
1 Hættulegasta ástandið í 50 ár.
Michael Zilmer-Johns er algjörlega sammála þessu mati. Hann nefnir netárásir og skemmdarverk á mikilvægum grunnvirkjum meðal annars af hálfu Rússa.
Rasmus Brun Pedersen tekur undir að „ógnarmyndin“ sé töluvert óvissari en í kalda stríðinu. Ógnin hafi breyst vegna þess að tæknin geri kleift að gera leynilegar árásir.
Andreas Bøje Forsby er þeirrar skoðunar að ástandið muni ekki batna á næstu árum.
2 Nýr öxull illsku gegn vestrinu.
Rasmus Brun Pedersen segir að ekki sé lengur unnt að draga ríki í dilka eins og í kalda stríðinu. Ríkin fjögur hafi hins vegar fundið sameiginlegan andstæðing.
Andreas Bøje Forsby finnst forsætisráðherrann draga heldur svart/hvíta mynd þótt ríkin séu vissulega á móti vestrinu og full tortryggni í garð þess.
3 Friðarsamningur í Úkraínu leysir ekki vandann.
Forsætisráðherrann sagðist ekki sjá neitt í framgöngu Rússa sem benti til þess að þeir vildu frið. Hún treysti hvorki orðum þeirra né undirskrift.
Andreas Bøje Forsby er sammála þessari greiningu Mette Frederiksen.
Rasmus Brun Pedersen telur að stóra myndin breytist ekki með friði í Úkraínu, Rússar vilji áfram stækka áhrifasvæði sitt.
Michael Zilmer-Johns er alveg sömu skoðunar og forsætisráðherrann, þrátt fyrir frið í Úkraínu muni Rússar áfram líta á NATO sem óvin.
Þessi stóru mál ber aldrei á góma meðal stjórnmálamanna við stjórnarmyndun hér. Ný samantekt Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi utanríkisráðherra, sýnir gjörbreytta stöðu Íslands í öryggismálum. Þórdís Kolbrún talar í svipuðum anda og Mette Frederiksen.
Við lifum mikla hættutíma. Stríðið í Úkraínu er aðeins eitt einkenni þeirra.
Af hverju spyr enginn þær, sem nú standa glaðbeittar og segjast ætla að mynda ríkisstjórn á Íslandi fyrir áramót, hvaða skoðun þær hafa á þessari stöðu og hvernig þær ætla að taka á henni?