27.3.2018 9:59

Víðtæk samstaða vegna óhæfuverksins í Salisbury

Samstaðan meðal vestrænna þjóða sýnir að hafi Vladimír Pútín ætlað að nota eiturefnaárásina í Salisbury til að sundra þeim hefur honum mistekist það hrapallega.

 Samstaðan meðal vestrænna þjóða sýnir að hafi Vladimír Pútín ætlað að nota eiturefnaárásina í Salisbury til að sundra þeim hefur honum mistekist það hrapallega. Það hefur löngum verið markmið Rússa að reka fleyg á milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku. Enn einu sinni mistókst það.

Almennt er litið þannig á að vegur Theresu May, forsætisráðherra Breta, hafi vaxið vegna þess hvernig hún hefur tekið á málinu.

Hér verður birt stutt frásögn af mismunandi áherslum ríkja sem ákváðu að reka ekki rússneska stjórnarerindreka á brott:

Ellefu ESB-ríki tilkynntu ekki um brottrekstur rússneskra sendiráðsmanna mánudaginn 26. mars. Í dag (27. mars) eru þessi ríki á listanum: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Grikkland, Írland, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Slóvakía og Slóvenía. Alls ráku 15 ESB-ríki 31 stjórnarerindreka úr landi, áður höfðu Bretar rekið 23.

Feðginin Sergei og Julia Skripal sem urðu fyrir eiturefnaárásinni í Salisbury sunnudaginn 4. mars 2018. Þau liggja milli heims og helju á sjúkrahúsi.

Á vefsíðunni EUobserver segir að nokkur þessara ríkja muni ákveða brottrekstur næstu daga. Belgísk stjórnvöld hafa 140 rússneska stjórnarerindreka á skrá hjá sér vegna tvíhliða sambands við Rússa og vegna Rússa sem koma fram gagnvart ESB annars vegar og NATO hins vegar. Belgar vita ekki hvar þeir eiga að bera niður við brottreksturinn. Þeir eiga á hættu að sendiráð þeirra í Moskvu verði mannlaust svari Rússar í sömu mynt.

Portúgalir segjast ekki ætla að reka neinn, þeir kjósi frekar sameiginlega aðgerð í nafni ESB-ríkjanna 28 en tvíhliða ráðstafanir.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði stjórn sína ekki ætla að grípa til neinna aðgerða. Í sameiginlegri yfirlýsingu kanslarans um Karin Kneissl utanríkisráðherra sagði að Austurríkismenn vildu halda samskiptaleiðum við Rússa opnum, Austurríki væri hlutlaust land og liti á sig sem brúarsmið í samskiptum austurs og vesturs. Á það er bent að annar stjórnarflokkur Austurríkis, Frelsisflokkurinn, lengst til hægri, hafi ritað undir samstarfssamning við flokk Vladimírs Pútín, Sameinað Rússland,

Stjórnvöld á Möltu eru sögð hafa hagnast um hundruð milljónir evra á sölu ESB-vegabréfa til auðugra Rússa. Þau sögðust ekki reka neinn Rússa úr landi vegna þess að sendiráð þeirra í Moskvu væri svo lítið að hvert svar Rússa yrði til þess að loka því í raun.

Í ummælunum um smæð sendiráðs Möltu felst svipuð afstaða og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur lýst til skýringa á því að enginn rússneskur sendiráðsmaður verður rekinn frá Íslandi.

Búlgarar hafa ræktað öflug viðskiptatengsl við rússnesk fyrirtæki. Þeir minna á að nú sitji þeir í forsæti ráðherraráðs ESB og verði að gæta hlutleysis.

Að baki grísku ríkisstjórninni stendur m. a. hægri flokkur hlynntur Rússum, Anel-flokkurinn. Gríska stjórnin segist aldrei ætla að beita refsingu gagnvart ríki sem á fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þá vill hún fá nánari lýsingu á því sem gerðist í Bretlandi.

Kýpverjar fylgja sömu stefnu og Grikkir. Í bönkum á Kýpur eiga Rússar marga milljarða evra. Stjórn Kýpur hefur einnig selt auðugum Rússum vegabréf.

Í Fréttablaðinu í dag segir Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, meðal annars:

„Bretar meta mikils yfirlýsingar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra   um samstöðu og áhyggjur af málinu. Samstaða leiðtoga Evrópusambandsins um málið á fundi þeirra fyrir helgi styrkir okkur í að vinna áfram með alþjóðlegum bandamönnum okkar að því að segja hingað og ekki lengra, svo að Rússar skilji að þeir komist ekki upp með að halda því áfram að skaða lýðræðissamfélög í vestri og austri.“