22.3.2020 11:27

Viðspyrna vegna veirunnar

Nú berast fréttir frá Brussel um að ESB brjóti „helgar grundvallarreglur“ sínar í von um að milda áhrifin vegna kórónaveirunnar.

Eftir að ríkisstjórnin sagði frá efnahagsaðgerðum sínum vegna Covid-19 laugardaginn 21. mars hlóð ég frétt forsætisráðuneytisins um aðgerðirnar niður á FB-síðu mína með þessum orðum:

„Mögnuð efnahagsaðgerð. Vel kynnt og á traustum grunni. Um 8% af landsframleiðslu - hjá öðrum þjóðum er gjarnan miðað við 5%. Ríkisstjórnin gengur fram af festu og ábyrgð.“

Nú hafa um 200 manns tekið undir þessa skoðun á FB-síðunni minni. Sumir segja jafnframt álit sitt og ég vitna hér í orð Guðbjörns Guðbjörnssonar sem lætur að sér kveða á FB og annars staðar enda fjölfróður og með skoðanir á mönnum og málefnum. Hann segir:

„Algjörlega sammála þér og ég er virkilega ánægður með ríkisstjórnina þessu sinni og þó alveg sérstaklega Bjarna Benediktsson, sem segir sannleikann umbúðalaust. Sjálfstæðisflokkurinn fær mörg prik í kladdann um þessar mundir.“

Um þetta verða ekki höfð fleiri orð. Okkur Guðbjörn hefur greint á um ESB-aðildina. Hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn eftir um 30 ára samveru í honum og gekk til liðs við Viðreisn til að fylgja eftir áhuga sínum á ESB-aðild.

DJI_0457Af vefsíðu stjórnarráðsins

Nú berast fréttir frá Brussel um að ESB brjóti „helgar grundvallarreglur“ sínar í von um að milda áhrifin vegna kórónaveirunnar.

Fallið er frá meginreglunni um að halli á fjárlögum megi ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og einnig eru kröfur um bann við ríkisaðstoð að engu orðnar.

Lána má eins mikið fé úr ríkisfjárhirslum einstakra ESB-ríkja og nauðsynlegt er talið. Í fjármálakreppunni fyrir um það bil áratug var aldrei slakað á þessari reglu innan ESB. Engir stóðu fastari vörð um hana en Þjóðverjar. Þeir hafa nú breytt um stefnu. Markmið þýsku stjórnarinnar er að ekkert fyrirtæki á heilbrigðum rekstrargrundvelli líði undir lok vegna veirunnar. Ríkissjóðurinn geti tryggt það. Engar ESB-reglur komi í veg fyrir það.

Boðskapur Emmanuels Macrons Frakklandsforseta var í sama dúr mánudaginn 15. mars þegar hann sagði í sjónvarpsávarpi að ríkissjóði Frakka yrði beitt til þess að sigra í kórónaveiru-stríðinu hvað sem það kostaði. Laugardaginn 21. mars samþykkti framkvæmdastjórn ESB 300 milljarða evru fjárhagsaðstoð frönsku ríkisstjórnarinnar við fyrirtæki í Frakklandi.

Hvarvetna leggja ráðamenn áherslu á samstöðu þjóða nema í Bandaríkjunum þar sem veiruviðbrögðin hafa orðið að hörðu ágreiningsefni milli Donalds Trumps forseta og Joes Bidens, líklegasta forsetaframbjóðanda demókrata í nóvember 2020. Biden sakar forsetann um að segja rangt frá eigin aðgerðum fyrir utan að lofa árangri út í bláinn. „Fólk er óttaslegið. Það er hrætt. Og forsetinn magnar aðeins áhyggjur þess,“ segir Biden. Stuðningsmenn Trumps saka Biden um ómerkilegheit í pólitískum tilgangi.