12.5.2021 9:37

Viðreisn vegur að sjávarútvegi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fer fremst í flokki stjórnmálamanna um þessar mundir í gagnrýni á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Síðdegis í dag (12. maí) kynnir Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, helstu niðurstöður skýrslu fjögurra vísindamanna um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.

Í Morgunblaðinu er í morgun sagt frá þeirri niðurstöðu í skýrslunni að íslenska kvótakerfið í fiskveiðum hvetji „útgerðir til að lágmarka kostnað og hámarka aflaverðmæti“. Þá sé „frjáls verðmyndun á markaði .. útgerðum hvatning til að reyna að fá sem hæst verð fyrir aflann“. Íslenskur sjávarútvegur sé, þrátt fyrir sífellt harðnandi alþjóðlega samkeppni, „í algjörri sérstöðu með tilliti til þess að hann greiðir meira í opinbera sjóði en hann fær úr þeim, sem [sé] ekki tilfellið í hinum 28 aðildarríkjum OECD“. Jafnframt hafi opinber stuðningur við sjávarútveg aukist í ríkjum OECD, að Íslandi undanskildu. Fjárhagslegur styrkleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja geri þeim kleift að þróa nýjustu tækni í „veiðum, vinnslu, flutningum og síðast en ekki síst í markaðssetningu“.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fer fremst í flokki stjórnmálamanna um þessar mundir í gagnrýni á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Þetta kom til dæmis skýrt fram í umræðum sem hún stofnaði til um þau á alþingi mánudaginn 10. maí. Hún sakaði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra enn á ný um að gæta ekki „almannahagsmuna“ gagnvart þessum fyrirtækjum og með stefnu í sjávarútvegsmálum. Taldi Þorgerður Katrín að stjórnvöld í Noregi, Færeyjum og Namibíu stæðu sig betur í þessu efni.

7DM_7502_raw_171027.width-720Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir í sjónvarpssal.

Af orðum formanns Viðreisnar mátti þannig ráða að hún vísaði til frétta ríkisútvarpsins þar sem látið er að því liggja að í löndunum þremur sé gripið til sérstakra ráðstafana til að verjast íslenska fyrirtækinu Samherja en á starfsemi þess í löndunum þremur bregður ríkisútvarpið jafnan því ljósi að eitthvað óhreint sé í pokahorninu.

Í svari sínu minnti Katrín Jakobsdóttir á að fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi væru takmarkaðar. Færeyingar hefðu samþykkt að takmarka slíkt eignarhald og sótt „innblástur“ hingað til lands. Nú vildu Norðmenn skerpa reglur og eftirlit með erlendum fjárfestingum í útgerðarfyrirtækjum hjá sér þar sem skip sem fá veiðikvóta verði að vera a.m.k. 60% í eigu Norðmanna. Taldi forsætisráðherra eðlilegt að Norðmenn vildu ekki að lög og reglur um þetta væru sniðgengnar. „Þetta snýst um hagsæld þeirra [Norðmanna] og sjávarútveginn sem þeir stunda svo að ég hef fullan skilning á því, alveg eins og ég hafði mikinn skilning á því að Færeyingar vildu horfa til íslenska fordæmisins þegar kæmi að erlendu eignarhaldi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Forsætisráðherra benti þannig á að íslensk stjórnvöld hefðu ekkert að sækja til Noregs eða Færeyja í sjávarútvegsmálum eins og Þorgerður Katrín vildi að gert yrði. Ráðherrann minntist ekki á Namibíu enda eiga stjórn fiskveiða eða reglur um útgerðarfyrirtæki þar sem betur fer ekkert skylt við íslenskan veruleika nema í huga þeirra leggja sig fram um að sverta íslenskan sjávarútveg og útgerðarfyrirtæki.