Viðreisn níu ára
Þetta er kannski ein meginskýringin á sjálfsupphafningunni sem einkennir Viðreisn. Flokkurinn hefur að minnsta kosti ekki tilefni til að hreykja sér af neinu sem hann hefur áorkað.
Viðreisn var stofnuð 24. maí 2016 og fagnar því níu ára afmæli á morgun. Upphaflegur tilgangur flokksins var að knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flokkurinn sló þó af kröfum sínum í því efni þegar hann settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð í janúar 2017. Björt framtíð rauf stjórnarsamstarfið og gengið var til kosninga í október 2017. Um miðjan október sagði Benedikt Jóhannesson, helsti hvatamaður að stofnun Viðreisnar, af sér formennsku og vísaði til slaks gengis í skoðanakönnunum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kosin í stað hans og situr hún enn sem formaður og nú sem utanríkisráðherra.
Af vefsíðu Viðreisnar.
Eitt helsta einkenni flokksins hefur frá upphafi verið augljós sjálfsupphafning. Hann sé betri og viti flest betur en aðrir flokkar. Hann gæti almannahagsmuna en sé andvígur sérhagsmunum. Innan raða hans sé fólk sem sjái lengra og átti sig betur en aðrir á því hvað sé Íslendingum fyrir bestu. Framtíð Íslands sé best tryggð innan Evrópusambandsins undir forsjá Brusselmanna.
Við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr fékk flokkurinn óljóst ákvæði í stjórnarsáttmála um framhald viðræðna við ESB með því skilyrði að ekki síðar en fyrir árslok 2027 heimilaði þjóðin þetta framhald í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað felst nákvæmlega í orðalaginu veit enginn fyrir utan að tímasetningin er þannig að stofnað verður til stórpólitískra deilna undir lok kjörtímabilsins sem skila engu gagnvart ESB fyrir þingkosningar á árinu 2028.
Valdakjarni Viðreisnar starfaði áður í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín naut þar trúnaðar og trausts sem þingmaður, ráðherra og varaformaður flokksins. Hún hvarf úr varaformennskunni 2009 og af þingi 2013 þegar hún naut ekki trausts til að skipa efsta sæti á lista flokksins í SV-kjördæmi. Þorsteinn Pálsson, hugmyndafræðingur flokksins, naut trausts sem formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1983 til 1991 þegar Davíð Oddsson sigraði hann í formannskosningum. Sat Þorsteinn á þingi og naut trausts sem ráðherra til ársins 1999 þegar honum var treyst fyrir embætti sendiherra.
Viðhorf þeirra sem yfirgefa stjórnmálaflokk og ganga til liðs við nýjan minna oft á sjónarmið sem birtast hjá þeim sem yfirgefa ættland sitt og setjast að í nýju landi. Flutningurinn er réttlættur með því að tala gamla landið niður. Þetta er kannski ein meginskýringin á sjálfsupphafningunni sem einkennir Viðreisn. Flokkurinn hefur að minnsta kosti ekki tilefni til að hreykja sér af neinu sem hann hefur áorkað.
Í dag (23. maí) skrifar þingflokksformaður Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, afmælis- og sjálfsstyrkingargrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Traust skiptir máli. Orðið traust er líklega ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug sem treystu Þorgerði Katrínu og Þorsteini Pálssyni fyrir forystu í Sjálfstæðisflokknum þar til fyrir níu árum.
Í lok greinar sinnar segir Sigmar að traust sé ekki eitthvert innantómt orð; traust snúist um að fólkið í landinu finni með áþreifanlegum hætti að ríkisstjórn með Viðreisn innanborðs geri Ísland sterkara, sanngjarnara og frjálsara.
Sannarlega þvælist minnimáttarkennd ekki fyrir þessum níu ára gamla flokki.