17.11.2024 9:50

Viðreisn krafin svara um ESB

Forysta Viðreisnar verður að gera kjósendum grein fyrir hvað raunverulega felst í ESB-ummælunum sem oddviti hennar í Suðurkjördæmi lét falla. 

Oddvitar allra framboða í Suðurkjördæmi sátu fyrir svörum í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 13. nóvember og á mbl.is laugardaginn 16. nóvember sagði frá því að Guðbrandur Einarsson alþingismaður Viðreisnar hefði vikið að aðildarviðræðunum við ESB sem vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hóf 2010 en þær voru settar á ís í janúar 2013. Sagði þingmaðurinn að það væri „ófrávíkjanlegt skilyrði“ Viðreisnar fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að áframhald yrði á viðræðunum. Eru ummælin til á myndupptöku frá fundinum.

Í stefnuskrá Viðreisnar segir um þennan málaflokk:

„Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Á þeim forsendum leggur Viðreisn áherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það þýðir að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggja fyrir.“

Í þessu felst að ekki verði gengið til viðræðna við ESB nema alþingi samþykki fyrst að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu til að kanna hug þjóðarinnar um hvort það skuli gert.

Screenshot-2024-11-17-at-10.49.28

Ef til vill á að skilja orð Guðbrands á þann veg að „ófrávíkjanlega skilyrðið“ snúi að kröfu um að alþingi samþykki að stofna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.

Frá 2013 hefur legið fyrir að enginn meirihluti er á alþingi fyrir tillögu um þetta efni. Allir raunsæjir menn sjá að alþingi myndi ekki samþykkja slíka tillögu nema hugur fylgdi máli hjá stuðningsmönnum hennar, það lægi fyrir að meirihluti þingmanna vildi að tillagan yrði samþykkt til að koma á viðræðum við ESB. Fyrir því yrði barist í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Þjóðin myndi klofna í slíkri atkvæðagreiðslu. Að stofna til hennar bara til að greiða atkvæði er hreint glapræði. Til að vinna tillögunni fylgi yrði að tala niður ágæti EES-aðildarinnar og upphefja kosti ESB-aðildar á kostnað EES-samstarfsins. Ekkert tilefni er til að gera það.

Þá ber að hafa í huga að ESB-aðild kemur ekki til álita að óbreyttri stjórnarskrá. Henni verður ekki breytt nema á tveimur þingum með kosningum á milli. Viðreisn hefur hvergi boðað hvernig hún vill breyta stjórnarskránni.

Loks er fráleitt að líta þannig á að unnt sé að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í janúar 2013. Það yrði að afskrifa það ferli allt og samþykkja nýtt aðildarumboð af Íslands hálfu miðað við nýjar kröfur ESB um aðlögun og inngildingu.

Forysta Viðreisnar verður að gera kjósendum grein fyrir hvað raunverulega felst í ESB-ummælunum sem oddviti hennar í Suðurkjördæmi lét falla. Ef ekki verða gefnar nánari skýringar á þeim verður að líta á þögnina sem markvissa tilraun til að leyna kjósendur afstöðu til máls sem snertir stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.