10.8.2017 10:18

Viðreisn í sporum Syriza

Grikkir voru settir í skrúfstykki þríeykisins árið 2010. Syriza sigraði í kosningum með loforði um að losa þá úr spennitreyjunni.

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, segir í Fréttablaðinu í dag, 10. ágúst að þrátt fyrir góðan vilja íslenskra stjórnmálamanna fram til þess sýni sagan okkur „að þeim hefur aldrei tekist að stýra peningamálum þjóðarinnar svo þau þjóni hagsmunum almennings. Þeir hafa aldrei náð að beisla ótemjuna: Krónuna“.

Málflutningur af þessu tagi er fjarri öllum sanni, að peningamál þjóðarinnar hafi aldrei þjónað „hagsmunum almennings“ og það megi rekja til íslensku krónunnar. Áróðurinn minnir á pólitískan heilaþvott sem reistur er á kenningu um að stilla verði á árið O og hefja söguna á nýjum grunni, fortíðin sé ekki annað en saga mistaka. 

Yanis Varoufakis var fjármálaráðherra Grikklands í nokkra mánuði eftir að Syriza, bandalag vinstri flokkanna komst til valda árið 2015 í krafti kosningastefnu gegn aðhaldi í ríkisfjármálum og gegn þvingunum þríeykisins, framkvæmdastjórnar ESB, seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varoufakis mótaði stefnu sem reist var á hótun um að segja skilið við evruna ef harðræði þríeykisins yrði ekki brotið á bak aftur á annan hátt. Hann vildi þó áfram vera innan evru-svæðisins en við skilyrði sem hann taldi lífvænleg fyrir Grikki.

Varoufakis skrifaði bók um reynslu sína af samskiptunum við þríeykið, Adults in the Room. Hún kom út fyrr í sumar og ætti að vera skyldulesning allra sem hafa áhuga á kynna sér starfshætti ráðamanna á evru-svæðinu og stjórnarhætti innan ESB. Séu ráðamenn Viðreisnar þeirrar skoðunar að hagsmuna íslensks almennings eða fyrirtækja yrði betur gætt á evru-svæðinu en undir handarjaðri íslenskra stjórnvalda með krónuna sem mælikvarða um árangur af hagstjórn sýnir það aðeins að þeir þekkja hvorki Íslandssöguna né sögu evrunnar.

Húsnæðisskort í Reykjavík er ekki unnt að rekja til hárra vaxta eins og Jóna Sólveig segir heldur skorts á lóðum og svikinna loforða Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem boðaði 5.000 nýjar íbúðir fyrir fjórum árum – eru þau svik krónunni að kenna?

Grikkir voru settir í skrúfstykki þríeykisins árið 2010. Syriza sigraði í kosningum með loforði um að losa þá úr spennitreyjunni. Eftir að Varoufakis hrökklaðist úr embætti fjármálaráðherra sætti Alexis Tsipras, forsætisráðherra Syriza, sig árið 2016 við að vera áfram í skrúfstykkinu og láta herða það enn frekar. Hann gafst upp við að breyta Grikklandi eða Evrópu. Syriza breytti um stefnu og Tsipras tók að sér að framfylgja fyrirmælum þríeykisins.

Viðreisn er í sporum Syriza. Hún settist í ríkisstjórn og sveik stefnu sína. Varla er það krónunni að kenna?