Viðreisn gegn hvalveiðum
Það sýnir aðeins að íslenskir stjórnmálamenn eru á villigötum geri þeir hvalveiðar að því stórpólitíska máli sem nú er enn einu sinni reynt með aðstoð launaðs huldumanns.
Hver hefði ímyndað sér að hugmyndafræðingar Viðreisnar teldu flokknum helst til framdráttar fyrir þessar kosningar að gera hvalamálið að helsta baráttumáli sínu? Spurningin vaknar þegar lesnir eru pistlar Þorsteins Pálssonar og Orðsins á götunni í dv.is, málgagni Viðreisnar, fimmtudaginn 14. nóvember.
Þorsteinn telur óheppilegt að talsmenn annarra flokka hafi ekki dregið þetta mál inn í kosningabaráttuna. Hann er ósammála því að önnur mál séu mikilvægari. Hann vill því leggja sitt af mörkum með túlkun á samræðum á Edition-hóteli sem teknar voru upp með leynd og miðlað til hvalavina. Þar ræddust við fasteignasali og erlendur huldumaður sem þóttist vilja ræða stórar fjárfestingar en var ekki annað en leynilegur málaliði hvalavina.
Fasteignasalinn, sonur Jóns Gunnarssonar alþingismanns, taldi sig vita hvers vegna faðir hans skipaði nú 5. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi eftir að hafa tapað kosningu um 2. sætið, það væri vegna áhuga hans á hvalveiðum og þess vegna væri hann aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætis-, matvæla- og félagsmálaráðherra.
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, segir réttilega að ekki sé neitt bitastætt í leynilegu upptökunni.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir hana brot á persónuverndarlögum. Hitt sé þó öllu alvarlegra að reynt hafi verið með ólögmætum og saknæmum hætti að afla upplýsinga í því skyni að hafa áhrif á gengi ákveðins manns eða tiltekins stjórnmálaflokks í kosningum. Héraðs- eða ríkissaksóknari á að hafa frumkvæði að því að rannsaka þetta mál, segir Sigurður G. en ríkislögreglustjóri hefur hafið gagnasöfnun vegna þess.
Hvalamynd af FB-síðu Páls Steingrímssonar skipstjóra.
Þorsteinn Pálsson vill hins vegar nýta sér þetta mál til að koma pólitísku höggi á formann Sjálfstæðisflokksins og gefur í skyn að hann hafi „keypt“ Jón Gunnarsson til að taka fimmta sætið á lista með sér með því að gera hann að aðstoðarmanni í matvælaráðuneytinu „í því skyni meðal annars að greiða fyrir leyfi til hvalveiða“.
Þegar Þorsteinn Pálsson var sjávarútvegsráðherra á tíunda áratugnum taldi hann að úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu myndi leysa hvalavanda sinn á ráðherrastóli. Það reyndist tóm ímyndun en með því að ganga aftur í ráðið var unnt að skapa fyrirvara og hefja hvalveiðar að nýju. Nú eru hvalastofnar svo sterkir að sérfræðingar mæla með því að Alþjóðahvalveiðiráðið verði aflagt, friðunarsinnar innan ráðsins geri ekki annað en ógagn.
Það sýnir aðeins að íslenskir stjórnmálamenn eru á villigötum geri þeir hvalveiðar að því stórpólitíska máli sem nú er enn einu sinni reynt með aðstoð launaðs huldumanns. Tveir VG-ráðherrar brutu stjórnsýslulög til að útiloka hvalveiðar og flokkur þeirra kann að hverfa af þingi.
Ber að skilja skrif Þorsteins Pálssonar, málsvara Viðreisnar, á þann veg að líta eigi á hvalamálið sem lykilatriði, þunga hlassið, í kosningabaráttunni? Er honum alvara þegar hann segir að ráðherra í starfsstjórn geti ekki tekið ákvörðun um leyfi til hvalveiða?