16.4.2023 10:39

Viðreisn, flokkur í kreppu

Viðreisn flaggar ekki ESB-aðildinni á sama hátt og áður. Hefur það leitt til þess að varaþingmaður flokksins hefur blásið nýju lífi í ESB-aðildarfélag utan þings. 

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn fagnar brátt sjö ára afmæli. Á hvítasunnu árið 2016 kom sá andi yfir ýmsa félaga í Sjálfstæðisflokknum að þeir yrðu að stofna sérstakan flokk til að vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Eftir að ESB-flokkarnir, Samfylking og VG, höfðu fengið ömurlega útreið í þingkosningum vorið 2013 mynduðu flokkarnir sem vildu ekki ESB-aðild, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, ríkisstjórn, auðvitað án þess að hafa aðild að ESB á dagskrá. Umsóknarferlinu frá 2009 var formlega slitið í Brussel árið 2015 af tveimur þáverandi framsóknarmönnum, utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni og forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Downloadvr

Þeir sem að stofnun Viðreisnar stóðu sættu sig ekki við að ríkisstjórn sem ekki hafði ESB-aðild á stefnuskrá sinni skyldi ekki efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Allir sjá hve undarleg þessi krafa var en um hana var samt hart deilt og réð höfnun hennar miklu um að Viðreisn var stofnuð.

Í kosningum 29. október 2016 fékk Viðreisn 10,5% atkvæða og 7 þingmenn. Í kosningum 28. október 2017 fékk Viðreisn 6,7% og 4 þingmenn. Í kosningunum 25. september 2021 fékk Viðreisn 8,3% og 5 þingmenn. Aðeins Miðflokkurinn er minni á þingi núna.

Viðreisn hefur með öðrum orðum aldrei náð flugi. Hún átti ráðherra í ríkisstjórn í nokkra mánuði milli kosninganna 2016 og 2017 en hefur hins vegar staðið að meirihlutastjórn Reykjavíkurborgar frá sveitarstjórnarkosningunum 2028, missti að vísu annan borgarfulltrúa sinn í kosningunum 2022. Stendur borgarfulltrúi Viðreisnar þétt við hlið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Viðreisn flaggar ekki ESB-aðildinni á sama hátt og áður. Hefur það leitt til þess að varaþingmaður flokksins hefur blásið nýju lífi í ESB-aðildarfélag utan þings. Í stjórnarandstöðu er málflutningur Viðreisnar að mestu reistur á nöldri í garð Sjálfstæðisflokksins, keppni við Pírata í útlendingamálum og við Samfylkinguna í endurteknum tilraunum til að koma spillingarstimpli á Sjálfstæðisflokkinn og formann hans.

Viðreisn gerir velgengni í sjávarútvegi torrtyggilega og hefur horn í síðu landbúnaðar á Íslandi eins og Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, vakti máls á í grein á visir.is laugardaginn 15. apríl. Þingmenn flokksins vilja fella niður verndartolla á landbúnaðarvörur, koma í veg fyrir að heimila hagræðingu hjá kjötafurðastöðvum og afnema heimild afurðastöðva í mjólk til að vinna eftir sömu leikreglum og þekkist víða í ESB og Noregi, en segjast samt standa með bændum og landbúnaðinum. Viðreisn hefur því miður orðið lýðskruminu að bráð.

Hvorki sjávarútvegur né landbúnaður falla undir EES-samninginn, kæmi aðildarumsókn Íslands að nýju til sögunnar yrði að semja um afsal forræðis íslenskra stjórnvalda yfir þessum tveimur grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Að ala á tortryggni og gera sem minnst úr gildi íslensks forræðis á þessum sviðum er sjálfstætt pólitískt markmið talsmanna ESB-aðildar.

Viðreisn hefur tekið upp þá stefnu að ekki beri að hefja aðildarviðræður við ESB án þess að þjóðin veiti til þess umboð í atkvæðagreiðslu.