Viðkvæm mál í fréttum
Í þessu máli eins og öðrum ber fjölmiðlamönnum að gæta sín á að halda ekki einhliða málstað að lesendum sínum eða hlustendum.
Hörmulegt er að ekki takist að ná samningi um kjör ljósmæðra. Deilan hefur staðið mánuðum saman og er að verulegu leyti háð í fjölmiðlum undir forystu Katrínar Sifjar Sigurgeirsdóttur, formanns samninganefndar ljósmæðra, sem stígur fast til jarðar og talar eins og um pólitísku deilu sé að ræða þegar hún sakar fjármálaráðherra um ábyrgðarleysi og hroka. Þetta gerir hún til dæmis í Fréttablaðinu í dag (3. júlí) og segir ráðherrann ekki svara skilaboðum. Vitnar hún í ummæli ráðherrans frá 5. maí máli sínu til stuðnings.
Myndin er af mbl.is og sýnir ljósmæður sem lagt hafa skó á tröppur Stjórnarráðshússins. Þetta er liður í kjarabaráttu þeirra.
Ástæðulaust er að láta þess ógetið í fréttum um kjarabaráttu ljósmæðra að 29. maí gerðu þær kjarasamning við ríkið sem um 70% þeirra felldu síðan í atkvæðagreiðslu sem lauk 8. júní. Það er því rangt að fullyrða eins og Katrín Sif gerir að ekki sé vilji af hálfu samningamanna ríkisins til að ræða við ljósmæður eða semja við þær. Stóryrði hennar og skammir í garð fjármálaráðherra hafa því miður á sér mikinn áróðursblæ og bera þess ekki merki að mikill vilji sé til að ná samningi af hennar hálfu. Sjálf skipaði Katrín Sif 14. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi í kosningunum í október 2016.
Í þessu máli eins og öðrum ber fjölmiðlamönnum að gæta sín á að halda ekki einhliða málstað að lesendum sínum eða hlustendum.
Laugardaginn 30. júní hljóp fréttastofa ríkisútvarpsins til dæmis illilega á sig þegar hún sagði frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) ætlaði að athuga kæru vegna skipunar dómara í landsrétt. Fréttastofan studdist einhliða við rangfærslur Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Um þetta er fjallað í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir:
„Um þessa fyrstu frétt sáu þær Sigríður Hagalín og Þórhildur Þorkelsdóttir og virtust telja óþarft að fá nokkurn til að tjá sig af viti um fréttina, þótt í henni hafi ekki verið heil brú. Látið var eins og nefndur dómstóll [MDE] væri áfrýjunardómstóll gagnvart íslensku dómskerfi. Fullyrt var að einhver niðurstaða hans, sem fimbulfambað var um, gæti ógilt endanlega íslenska dóma! Ekki er fótur fyrir því. [...] Enn hefur enginn boðist til að segja af sér. Hvorki hinn óhæfi nefndarformaður né þessir vankunnugu og ómálefnalegu fréttamenn. Þeir hafa ekki heldur beðið þjóðina, sem á og kostar fyrirbærið „RÚV“, afsökunar á vitleysu og hræðsluáróðri um alvörumál, sem ekki var minnsta hald í.“