31.10.2021 10:38

Við feigðarós frjálsrar fjölmiðlunar

Einkennilegt er að innan raða fjölmiðlamanna virðist ráða einskonar Stokkhólmsheilkenni þegar um þessi mál er rætt.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræðir stöðu sjálfstæðra fjölmiðla í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. október og segir þá annars vegar berjast við alþjóðleg risafyrirtæki um auglýsinga- og áskriftartekjur og hins vegar á heimamarkaði við „ríkisrekið fyrirtækið sem engu eirir“. Sú barátta verði aldrei háð á jafnræðisgrunni – sé ósanngjörn og geri flóru fjölmiðlunar fábreyttari en ella.

Þetta hafi þó ekki hindrað framtakssama og hugmyndaríka einstaklinga til að stofna fjölda hlaðvarpa. Fjölbreytileikinn þar virðist óendanlegur; þjóðmál, sagnfræði, kvenréttindi, heilsa, hugleiðsla, listir og menning, íþróttir og raunar nær allt mannlegt. Þarna sé vaxtarbroddur íslenskrar fjölmiðla um þesssasr mundir en einnig þarna reyni ríkisútvarpið að „klípa og særa“.

„Hvort ríkisfyrirtækinu sé heimilt að stunda slíka samkeppni er vafasamt en hitt er víst að engin lagaleg skylda hvílir á stofnuninni að vera stöðugt á vaktinni og hasla sér völl alls staðar þar sem einkaaðilar ná að skjóta lífvænlegum rótum í nýrri fjölmiðlun,“ segir þingmaðurinn.

Óli Björn bendir á að hvorki Samkeppniseftirlitið né Fjölmiðlanefnd láti sig þennan yfirgang ríkisbáknsins með um fimm milljarða af skattfé almennings að baki sér sig nokkru varða.

Samkeppniseftirlitið fetar sig inn á ritskoðunarbraut gagnvart hagsmunasamtökum og vill ráða hvað þau segja um augljósar vísbendingar um verðhækkanir vegna þróunar á alþjóðamörkuðum.

Fjölmiðlanefnd fylgist með vinsælum sjálfstæðum hlaðvarpsþáttum, sekti þá og tryggi að þeir séu skráðir í opinbera skrá stofnunarinnar um eigendur fjölmiðla. Ríkið fari sínu fram en einstaklingar séu sektaðir og þeir settir undir smásjá og hnepptir í spennitreyju opinbers eftirlits.

H

Þetta er næsta óhugnanleg lýsing þingmannsins á þróun íslenskrar fjölmiðlunar sem draga má saman með þeim orðum að ríkið og stofnanir þess geri nú orðið allt sem talið er fært til að drepa frjálst framtak til fjölmiðlunar í dróma. Því fleiri sem tækifærin verði fyrir hugmyndaríka einstaklinga til að láta ljós sitt skína því meiri áherslu leggja fulltrúar ríkisbáknsins á að hafa undirtökin með eigin fjölmiðli og með því að beita eftirlitsstofnunum.

Einkennilegt er að innan raða fjölmiðlamanna virðist ráða einskonar Stokkhólmsheilkenni þegar um þessi mál er rætt. Hvarvetna innan fjölmiðla eru talsmenn þess að þetta sé bara eðlilegt það sé best að kyssa á vöndinn. Meira að segja formaður Blaðamannafélags Íslands telur að bregðast eigi við ríkisofríkinu með því að ríkið taki alla innlenda fjölmiðla upp á sína arma og fari bara dýpra í vasa skattgreiðenda.

Það er mál að linni. Ekkert gerist þó nema þingmenn setji ríkisbákninu á þessu sviði nýjar leikreglur og auki svigrúm einstaklinga í stað þess að fjóta sofandi að feigðarósi.