1.1.2022 12:19

Við áramót - gleðilegt nýtt ár

Að minna á varðstöðu um frjálsa og lýðræðislega stjórnarhætti fullvalda þjóða sem ráða sjálfar örlögum sínum er brýnt verkefni stjórnmálaleiðtoga frjálsra þjóða.

Gleðilegt ár 2022!

Þegar rennt er yfir orð forystumanna stjórnmálaflokkanna í tilefni áramótanna vekur athygli að enginn ræðir stöðuna í alþjóðamálum svo að ekki sé minnst á öryggis- og varnarmál. Alvarleg viðfangsefni á þessum sviðum hefur þó borið hátt undanfarna mánuði og þau verða enn á dagskrá á nýju ári. Þar nægir að nefna hersafnað Rússa við landamæri Úkraínu og ögranir Kínverja í garð nágranna sinna á Tævan.

Forystumenn tveggja kjarnorkuvelda sýna nágrönnum sínum yfirgang á sama tíma og þeir herða tökin á eigin þjóðum. Milli jóla og nýárs lét Rússlandsforseti loka minningar- og mannréttindastofnuninni Memorial í Moskvu. Hún vann að því að skrá nöfn og sögu fórnarlamba Stalín annars vegar og stuðla að málfrelsi rússenskra andófsmanna samtímans hins vegar. Kínaforseti notaði tímann milli jóla og nýárs til að binda enda á frjálsa fjölmiðlastarfsemi í Hong Kong.

Í raun er merkilegt hve stjórnmálaumræðan er innhverf hér þegar íslenskt samfélag mótast alfarið af meginstraumum alþjóðamála og hefur opnast meira en nokkru sinni með aðild að sameiginlegum evrópskum vinnumarkaði og þrá eftir að sem flestir ferðamenn sæki landið heim.

IMG_4401Heimsfaraldur í tvö ár minnir daglega á sig og nú þennan nýársdag eru 7.685 í einangrun hér á landi vegna COVID-19 og 5.525 í sóttkví. Að lokun landamæra mundi beina farsóttinni fram hjá okkur var alltaf draumsýn.

Vafalaust hafa þau rök einhvern tíma verið notuð í umræðum um svigrúm innan íslenska heilbrigðiskerfisins að það þyrfti að tryggja mannafla, rými og tæki til að takast á við heimsfaraldur. Þegar hann birtist komu veiku punktarnir í ljós. Verður úr þeim bætt? Látum við okkur þetta að kenningu verða?

Nýir straumar setja svip á þróun öryggismála á okkar slóðum. Danir ákváðu 2021 að stórauka viðbúnað hers síns á norðurslóðum. Finnar ákváðu að endurnýja orrustuflugflota sinn. Norðmenn ráða yfir nýjum orrustuþotum og kafbátaleitarvélum. Bretar hafa að nýju hafið kafbátaleit úr lofti. Þjóðverjar vilja láta meira að sér kveða til að tryggja öryggi í GIUK-hliðinu. Allt eru þetta fjárfestingar sem jafnframt snerta öryggi okkar.

Þögn íslenskra stjórnmálamanna um þessi mál er áhyggjuefni og einnig kenningar um að Rússar séu of veikburða til að stofna að nýju til spennu hér á okkar slóðum. Þeir hafa þegar gert það hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er álíka raunhæft að loka augunum fyrir því og að hafa haldið að við losnuðum við veiruna með því að loka landamærunum.

Að minna á varðstöðu um frjálsa og lýðræðislega stjórnarhætti fullvalda þjóða sem ráða sjálfar örlögum sínum er brýnt verkefni stjórnmálaleiðtoga frjálsra þjóða um þessar mundir. Brýnna en birtist í þögninni um það hér á landi. Hér og nú verðum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum eins og við gerum með aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og sífellt öflugra samstarfi Norðurlandaríkjanna í alhliða öryggisgæslu þjóða sinna. Þögnin slævir ekki aðeins vitund þjóðarinnar um þennan mikilvæga þátt og stöðu hennar heldur gefur þá mynd út á við að forystumönnum hennar standi á sama um hvert stefnir.