15.5.2020 9:43

VG-tilfinningar og þjóðaröryggi

Mótmæli VG við steinsteypt mannvirki í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli koma í sjálfu sér ekki „neinum á óvart“, það er rétt.

Umræðum um þau áform að mannvirkjasjóður NATO komi að því að bæta aðstöðu í Helguvíkurhöfn er ekki lokið. Hér var í gær sagt að VG færði ekki nein efnisleg rök fyrir andstöðu sinni við framkvæmdirnar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og varaformaður utanríkismálanefndar alþingis, sagði við mbl.is í gær (14. maí) að það væri „dapurlegt að samstarfsflokkurinn sé að leggja svona tillögur fram“ og vísaði þar til Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði einnig:

„Ég er ánægð að sjá það, ef rétt reynist, að ráðherrar Vinstri grænna í ríkisstjórn hafi staðið í lappirnar og lýst sig andsnúin þessum fyrirætlunum.“

Þá er á mbl.is vísað til fyrri ummæla hennar um málið:

„Mér finnst sérstakt að kjörnir fulltrúar á Suðurnesjum séu að leita til NATO vegna uppbyggingar á innviðum. Eins og við vitum eru uppbygging og viðhald á vegum Atlantshafsbandalagsins þegar umdeild mál, þannig að ef við værum að fara í hernaðartengda uppbyggingu á hafnarsvæðum væri það eitthvað sem þyrfti mun ítarlegri umræðu við, enda um þjóðaröryggismál að ræða.“

Rósa Björk styður ekki ríkisstjórnina nema þegar henni sjálfri hentar, orð hennar vega því ekki þungt.

418213AHluti öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli sem lýtur alfarið íslenskri forsjá undir daglegri stjórn landhelgisgæslunnar. VG er andvígt því að erlent fjármagn fáist til að endurnýja svæðið og aðstöðuna í Helguvík.

Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir í Morgunblaðinu í dag (15. maí):

„Það er ábyrgðarhluti ef menn ætla að hverfa frá þjóðaröryggisstefnunni með þessum hætti. Ég get ekki annað en furðað mig á því að menn leggist gegn uppbyggingu sem þessari.“

Umfang framkvæmdanna hleypur á 12-18 milljörðum króna, en lítils mótframlags er krafist frá íslenska ríkinu. Í lok apríl var 28% atvinnuleysi skráð í Reykjanesbæ. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri segir í Morgunblaðinu í dag:

„Auðvitað hefði verið gott að fá þessi verkefni öll af stað með tilheyrandi starfafjölda. Okkur veitir ekkert af því en svona er pólitíkin. Við stjórnum henni ekki og menn hafa sína afstöðu. Þetta hefði vegið mjög þungt fyrir okkur, en sumt er óviðunandi af hálfu einhverra flokka og við verðum að sýna því skilning.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í Morgunblaðinu í dag:

„Þetta snýr að aukinni hernaðaruppbyggingu og mér finnst óviðeigandi að því sé blandað inn í efnahagsaðgerðir stjórnvalda. Við erum fullvalda ríki og þurfum ekki á hjálp þaðan að halda í efnahagsmálum. Mín framtíðarsýn fyrir Ísland snýst ekki um aukna hernaðaruppbyggingu. Það á jafnframt ekki að koma neinum á óvart.“

Forsætisráðherra lítur þetta neikvæðum augum vegna þess að við þurfum „ekki á hjálp þaðan að halda í efnahagsmálum“. Með orðinu „þaðan“ er líklega vísað til NATO. Ísland er aðili að mannvirkjasjóði bandalagsins og leggur fé af mörkum til hans og á rétt á greiðslum úr honum til mannvirkja sem undir hann falla. Hér er því ekki um neina ölmusu að ræða eins og skilja má af orðum forsætisráðherra.

Enn er því ástæða til að spyrja um efnisleg rök fyrir afstöðu VG. Á sínum tíma náðist víðtæk sátt um stefnuna í þjóðaröryggismálum, þar skipta NATO-aðildin og varnarsamstarfið við Bandaríkin sköpum. Mótmæli VG við steinsteypt mannvirki í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli koma í sjálfu sér ekki „neinum á óvart“, það er rétt, hitt er að þau eiga ekki við nein rök að styðjast sem er alvarlegt þegar þjóðaröryggi er í húfi.