VG-þingmaður gegn réttarbót
Málið snýst um hvort þeir sem lúta íslenskri lögsögu eigi að sitja við sama borð og aðrir þegar kemur að evrópska innri markaðnum. Þetta er einmitt megininntak EES-samningsins.
Þar sem jaðrarnir mætast lýsir vel stöðunni sem skapast þegar rætt er um EES-samstarfið. Þá verður til tenging milli þeirra sem skipa sér lengst vinstra megin á jaðrinum og hinna sem eru yst á hægri vængnum. Báðir þykjast standa vörð um fullveldi lands og þjóðar.
Sama pólitíska mynd birtist víðar. Þannig sagði Donald Trump að hans besti vinur í Evrópu væri Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem ræktar samband sitt við Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Allt eru þetta mjög stjórnlyndir og einsýnir ráðamenn þótt Pútin sé þeirra verstur með einræðisvald sitt. Það er afstaðan til valdsins og beitingar þess sem sameinar þá. Nýlega kom út bók um bandalag alræðissinna sem lýsir þessari alþjóðlegu þróun.
Eitt af einkennum slíkra bandalaga er að þar skipta staðreyndir engu ef þær þjóna ekki málstaðnum.
Þingmaður vinstri grænna, Bjarni Jónsson, misnotaði stöðu sína sem formaður utanríkismálanefndar alþingis vorið 2023 og kom í veg fyrir að frumvarp utanríkisráðherra um breytingar á EES-lögunum frá 1993 næði fram að ganga þrátt fyrir jákvæða afstöðu nær allra umsagnaraðila nefndarinnar og öruggan meirihluta fyrir málinu á þingi. Í dag (13. sept.) ritar Bjarni grein í Morgunblaðið sem ber annaðhvort með sér vísvitandi rangfærslu eða ótrúlega vanþekkingu.
Bjarni segir að í málinu standi ein stór spurning eftir: „Hvers vegna voru slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar [sem felast í bókun 35 við EES-samninginn] ekki uppi á borðum þegar fjallað var um EES-samninginn á sínum tíma og hann samþykktur á Alþingi 12. janúar 1993, með minnsta mun, eða 33 atkvæðum?“
Málið snýst um hvort þeir sem lúta íslenskri lögsögu eigi að sitja við sama borð og aðrir þegar kemur að evrópska innri markaðnum. Þetta er einmitt megininntak EES-samningsins. Að það hafi ekki verið „uppi á borðum“ þegar alþingi samþykkti EES-samninginn eru hrein ósannindi.
Hæstaréttarhúsið (mynd: vefsísða hæstaréttar).
Í áranna rás hefur Hæstiréttur Íslands, síðast á liðnum vetri, talið orðalag í 3. gr. EES-laganna koma í veg fyrir að íslenskur ríkisborgari njóti fyllsta réttar samkvæmt EES-samningnum. Lagagreinin sé orðuð á þann veg að stangist á við það sem segir í greinargerð EES-laganna um réttarstöðu Íslendinga, orð í lögum vegi þyngra en það sem í greinargerð segi. Frumvarpið sem Bjarni Jónsson stöðvaði miðar að því að bæta réttarstöðu Íslendinga og hann telur að það sé brot á stjórnarskránni!
Við setningu EES-laganna sá enginn fyrir að dómarar hér túlkuðu 3. gr. á þennan hátt enda gerðu þeir það ekki í fyrstu en skiptu síðar um skoðun.
Það hefur ýtt undir rangtúlkun á frumvarpi utanríkisráðherra að það er kennt við bókun 35 þótt það snerti hana ekki á nokkurn hátt, hún hefur gilt hér í meira en 30 ár.
Málið snertir skerta réttarstöðu einstaklinga og fyrirtækja vegna augljósra vankanta við lagasetningu miðað við það sem reynslan sýnir. Það var aldrei ágreiningsatriði við setningu EES-laganna hvort Íslendingar ættu að njóta þess réttar sem um var samið með aðildinni að innri markaðnum.