VG þegir um Úkraínu
Líklega stafar þögnin um utanríkismál af því að VG treystir sér ekki til að árétta fyrri stefnu sína gegn NATO og vörnum landsins á þessum tíma.
Utanríkisráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti alþingi skýrslu sína um utanríkismál í gær (21. mars). Fjölmiðlar gera ekki umræðum um hana sérstök skil í dag sem bendir til þess að ekkert fréttnæmt hafi gerst þótt þetta sé fyrsta almenna skýrslan sem ráðherrann gefur um stöðu Íslands í umheiminum frá því að stríðið hófst í Úkraínu með innrás Rússa í landið 24. febrúar 2022.
Þingmenn hafa nýlega afgreitt þjóðaröryggisstefnuna og náðu þar samkomulagi til að koma til móts við sjónarmið þeirra sem töldu einkennilegt að ekki væri minnst á varnir (les: hervarnir) landsins í tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um uppfærslu stefnunnar.
Stjórn Vinstri-grænna kjörin á landsfundi mars 2023 (mynd: mbl.is/aðsend).
Vinstri-græn héldu landsfund sinn á Akureyri 17. til 19. mars. Þegar rennt er yfir stjórnmálaályktun fundarins og ályktanir um einstaka málaflokka er þögnin um utanríkismál, að ekki sé talað um öryggis- og varnarmál, himinhrópandi. Er sérkennilegt svo að ekki sé meira sagt að flokkur forsætisráðherra komi saman til landsfundar á stríðstímum í Evrópu án þess að lýsa skoðun sinni á stöðu og stefnu Íslands við nýskipan alþjóðamála.
Forsætisráðherra býður til risavaxins leiðtogafundar Evrópuráðsins hér í maí og fór nýlega til Kyív til að árétta mikilvægi þess að rödd Úkraínumanna og forseta þeirra heyrðist á fundinum en flokkur ráðherrans þegir þunnu hljóði um utanríkismálin þegar hann kemur saman til landsfundar.
Líklega stafar þögnin af því að flokkurinn treystir sér ekki til að árétta fyrri stefnu sína gegn NATO og vörnum landsins á þessum tíma og eftir að formaður hans, forsætisráðherrann, hefur ritað undir heitstrengingar á erlendum vettvangi í nafni NATO og norræns samstarfs í öryggismálum auk þess að taka þátt í fundum um sameiginlegan viðbragðsherafla á norðurvæng NATO undir forystu Breta.
Í setningarræðunni sem Katrín Jakobsdóttir flutti á landsfundinum 17. mars ræddi hún áhrif stríðsins í Úkraínu sem meðal annars hefði leitt til þess að „umferð hvers kyns hernaðarfarartækja um okkar lögsögu og lofthelgi“ hefði aukist. Frá 2017 hefði hún leitt ríkisstjórn á grundvelli samþykktrar þjóðaröryggisstefnu og við hefðum „rækt skyldur okkar í öryggis- og varnarmálum en um leið lagt áherslu á að við erum friðsöm þjóð“. Þannig hefðum „við staðið fyrir viðhaldi bygginga á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli“.
Katrín minnti á að þjóðaröryggisstefnan hefði nýlega verið uppfærð en ekki hefði „skort sjálfskipaða fræðinga í fjölmiðlum sem kvarta undan því að stefnan taki ekki mið af stríðinu í Úkraínu“. – Þessir fræðingar gleymdu því þó að þjóðaröryggisráðið undir hennar forystu hefði nýlega gefið út áhættumat sem yrði okkar leiðarvísir í aðgerðum okkar næstu misseri.
Áhættumatið sem ráðherrann nefnir geymir 78 ábendingar en engin þeirra snýr að hervörnum þrátt fyrir að allar nágrannaþjóðir hafi litið til þeirra við uppfærslu á þjóðaröryggi sínu eftir innrásina í Úkraínu. Á þetta hafa „sjálfskipuðu fræðingarnir“ bent, þarf þó enga fræðinga til að sjá þetta.