6.2.2019 10:07

VG: Katrín segir skilið við Ragnar skjálfta

Með því að bjóða Ed Miliband til fundarins ganga vinstri grænir yfir línu og fara inn á völl Samfylkingarinnar.

Hörmungarnar í Venesúela þar sem sósíalistar hafa öll völd í hendi sér í skjóli hers landsins hafa orðið til þess að draga fram djúpstæðan ágreining meðal vinstri grænna (VG) á Íslandi.

Mánudaginn 4. febrúar varð ljóst að um 20 Evrópuríki viðurkenndu ekki lengur einræðisherrann Nicolas Maduro sem forseta Venesúela. ESB-ríki höfðu að tillögu sósíalistastjórnarinnar á Spáni gefið Maduro frest til sunnudags 3. febrúar að boða til lýðræðislegra og gegnsærra forsetakosninga. Eftir að hann varð ekki við þeim tilmælum viðurkenndi Spánarstjórn Juan Guadio, forseta þings Venesúela, sem Maduro hafði svipt völdum, bráðabirgðaforseta landsins. Sigldi síðan hvert ríkið eftir annað í kjölfar spænsku sósíalistanna, þar á meðal Ísland en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi við forsætisráðherra og upplýsti utanríkismálanefnd alþingis um afstöðu ríkisstjórnarinnar áður en hún var kynnt.

280E976200000578-0-image-a-30_1430169650839Ed Miliband verður ræðumaður á afmælisfundi VG.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra VG, brást illa við tilkynningu utanríkisráðherra. Sömu sögu er að segja um Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðing. Hann hlustaði á Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmann VG og varaformann utanríkismálanefndar alþingis, í hádegisfréttum ríkisútvarpsins þriðjudaginn 5. febrúar og brást hart við orðum hennar. Undrast hann sérstaklega að Rósa Björk dragi í efa að forsetakosningar í Venesúela í maí 2018 hafi verið lýðræðislegar. Færslu Ragnars á FB lýkur á þessum orðum:

„Ríkisstjórnir Evrópskra kapítalista sem hafa hætt Trump og gefið í skyn hatur sitt á honum fylgja honum nú eins og halaklipptir hundar, hræddir um að næsta árás finngálknisins í vestri lendi á þeim.

En hvað með VG á Íslandi? Öll stefna flokksins, öll umræða á aðalfundum og flokksráðsfundum lofar að flokkurinn styðji alþýðu Venesúela í baráttu hennar við bandaríska heimsvaldastefnu.

Og hvað með lýðræðið í okkar flokki. Stefna okkar er ekkert til að makka um í ríkisstjórninni, eða í þingflokknum. Ég sem félagi í flokknum, reyndar stofnfélagi, krefst þess að flokksforystan útskýri athafnir sínar á félagsfundi, og taki þátt í því með öðrum flokksfélögum að móta stuðningsyfirlýsingu með Venesúela.“

Næsti stórfundur VG er laugardaginn 9. febrúar. Til hans er efnt vegna 20 ára afmælis flokksins. Athygli vekur að helsti erlendi ræðumaður á fundinum er Ed Miliband, leiðtogi breska Verkamannaflokksins 2010 til 2015 og ráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns 2007 til 2010. Miliband sneri Verkamannaflokknum til vinstri í leiðtogatíð sinni en sagði af sér eftir að hafa tapað þingkosningunum 2015. Eftir það fór flokkurinn enn lengra til vinstri og nú deila menn þar eins og innan VG um afstöðuna til Maduros.

Að Ed Miliband tali á afmælisfundi VG er ekki merkilegt vegna þess að sósíalista greini á um hve langt þeir eigi að ganga í stuðningi við harðstjóra sem hafa komið þjóð sinni á vonarvöl heldur vegna hins að með því að bjóða Ed Miliband til fundarins ganga vinstri grænir yfir línu og fara inn á völl Samfylkingarinnar.

Afstaða flokksforystunnar til Maduros og boðið til Eds Milibands benda til þess að Katrín Jakobsdóttir sé markvisst að stíga á brott frá Ragnari Stefánssyni og þeirri fortíð sem hann vill verja.