5.10.2024 11:06

VG á endastöð

Það er rækilega staðfest í þessari ályktun að VG er á endastöð. Sjálfstæðismönnum er einnig nóg boðið. Nú snýst stjórnarsamstarfið meira um tímasetningar en efni málsins.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð (VG) efnir til landsfundar 4. til 6. október. Fyrir fundinum liggur tillaga að ályktun um stjórnarslit með þeirri meginröksemd að einkum Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki samstarfshæfur um „nátturuvernd, samfélagsmál eða efnahagsstjórn“.

Flokkurinn leiti lausna í „einkavæðingu, niðurskurðarstefnu og óheftri stóriðjustefnu“. Þetta allt gangi gegn stefnu Vinstri grænna. Samhliða hafi Sjálfstæðisflokkurinn „áfellst fólk fyrir að flýja stríð og gert innflytjendur almennt að blóraböggli fyrir slæmri efnahagsstjórn og vanrækslu innviða“.

Kannanir sýna að ríkisstjórnin nýtur mjög lítils fylgis og Sjálfstæðisflokkurinn er nú kominn niður í 12% sem er algjört einsdæmi. Óhætt er að fullyrða að fylgi flokksins mælist ekki svona lítið vegna þess að kjósendur telji að hann eigi að leggja sig meira fram um að ná málamiðlun við VG. Þvert á móti finnst kjósendum nóg að gert af hálfu forystumanna flokksins til málamiðlana við VG og Framsóknarflokkinn.

Í upphafi tillögunnar um stjórnarslit segja flutningsmenn hennar réttilega að ríkisstjórnin hafi „upphaflega [verið] mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa“. Þannig hafi komist á „festa í stjórnmálum“.

1519989Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Svandís Svavarsdóttir við upphaf Landsfundi Vinstri grænna 4. október 2024 (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson). 

Ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar, Sjálfstæðisflokki, var mynduð 11. janúar 2017 en sprakk 15. september 2017 og var þá gengið til kosninga 28. október 2017. Katrín Jakobsdóttir (VG) myndaði þriggja flokka stjórn 28. nóvember 2017, Bjarni myndaði síðan sína stjórn á sama grunni 9. apríl 2024.

Þegar kosið var undir lok október 2017 heyrðust að sjálfsögðu raddir um að áhætta væri tekin vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2018. Það bjargaðist allt. Vilji er allt sem þarf við afgreiðslu vel undirbúinna mála á alþingi.

Frá 2017 hefur auk þess verið tekin upp ný aðferð við gerð fjárlaga þannig að samtal ríkisstjórnar og þingmanna um efni og inntak laganna er orðið mun meira um þetta leyti árs en áður var.

Tillagan um stjórnarslit á landsfundi VG virðist einkum flutt til að árétta stefnumál flokksins og marka skýrari skil á milli hans og samstarfsflokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins. Athyglisvert er að ekki er vikið að því að ágreiningur sé milli flokkanna í varnar- og öryggismálum, það er um aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Skjót ferð yfir ályktunartillögurnar eins og þær voru lagðar fyrir landsfundinn sýnir að þar er skilað auðu varðandi NATO og varnarsamninginn. Á hinn bóginn er lagt til að „ólögmætt árásarstríð rússneskra yfirvalda í Úkraínu“ sé fordæmt. Ítrekaður er stuðningur VG við „kröfur Úkraínumanna um réttlátan frið“.

Ljóst er að ekki verður meiri orka virkjuð með VG í stjórn. Sagt er í tillögunni um stjórnarslit að náttúru Íslands standi ógn af áframhaldandi stóriðjustefnu og afskiptaleysi. Uppi séu áform um að tyrfa landið með vindorkuverum og samhliða aukist krafan um fleiri vatnsaflsvirkjanir. Orkunnar sé „ekki þörf fyrir heimili og venjuleg fyrirtæki“, enda eigi „að selja hana „hæstbjóðandi“ og vindorkuverin eiga velflest að vera í einkaeigu.

Það er rækilega staðfest í þessari ályktun að VG er á endastöð. Sjálfstæðismönnum er einnig nóg boðið. Nú snýst stjórnarsamstarfið meira um tímasetningar en efni málsins.