13.4.2017 12:03

Verndun þjóðargersema í Skálholti

Eins og fram kemur í samtalinu við Kristján Val er nú unnið að undirbúningi viðgerða á listaverkunum í Skálholtsdómkirkju: altaristöflunni miklu eftir Nínu Tryggvadóttur og gluggunum fögru eftir Gerði Helgadóttur. Er leitað til allrar þjóðarinnar um stuðning við þetta mikla verk sem kostar nokkur hundruð milljónir króna.

Í gær ræddi ég við sr. Kristján Val Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann hér á síðunni undir hnappnum Þættir í valslánni. Það er einn af kostum uppfærslu síðu minnar að nú færast viðtöl mín á ÍNN sjálfkrafa inn á síðuna þegar þau fara inn á Vimeo-kerfið. Ég hef unnið að því að skrá nöfn allra viðmælenda minna á síðuna Þættir til að auðvelda leit þar. Ég er kominn aftur til ársins 2014.

Eins og fram kemur í samtalinu við Kristján Val er nú unnið að undirbúningi viðgerða á listaverkunum í Skálholtsdómkirkju: altaristöflunni miklu eftir Nínu Tryggvadóttur og gluggunum fögru eftir Gerði Helgadóttur. Er leitað til allrar þjóðarinnar um stuðning við þetta mikla verk sem kostar nokkur hundruð milljónir króna.

Qi-gong-Skalholti-22-24.10.2010-091

Er ekki talinn vafi á að jarðskjálftarnir á Suðurlandi árið 2000 og árið 2008 hafi átt hlut að því sem nú þarfnast viðgerða. Líklega er erfitt að sanna það þegar svo langt er um liðið og ef til vill allur réttur til bóta úr Viðlagasjóði fyrndur. Hér skal hvatt til að það verði skoðað til hlítar hvort ekki sé réttmætt að þessi sameiginlegi sjóður þjóðarinnar nýtist til að flýta sem verða má nauðsynlegum viðgerðum á þjóðargersemunum í Skálholtsdómkirkju.

Í samtalinu rifjaði ég upp að um 240.000 manns eru í þjóðkirkjunni og 40.000 skráðir í aðrar kristnar kirkjudeildir, samtals 280.000 manns af rúmlega 330.000 íbúum landsins. Þetta er hátt hlutfall. Skráðum hefur fækkað í þjóðkirkjunni undanfarin ár og er óvenjulega mikið gert úr því í fréttaflutningi án þess að heildarmyndin sé birt eða lýst þróun annars staðar. Kristján Valur lét þess til dæmis getið að í þýsku borginni Magdeburg væru 87% utan trúfélaga.

Hér eru skráðir hópar utan þjóðkirkjunnar: Siðmennt með 1.400 skráða félaga, Ásatrúarmenn með um 3.000 og múslímar tæplega 500. Enginn þessara hópa getur kvartað undan að þeim sé ekki gert hátt undir höfði í opinberum umræðum svo að ekki sé minnst á félagsskapinn Vantrú en innan hans sæta menn lagi til að láta að sér kveða í opinberum umræðum hvenær sem þeir telja sig finna snöggan blett á kirkjunnar mönnum. Í Morgunblaðinu í dag er til dæmis grein eftir Hjalta Rúnar Ómarsson, formann Vantrúar, þar sem hann sakar sr. Geir Waage, prest í Reykholti, um að fara með rangt mál varðandi rétt kirkjunnar til sóknargjalda.

Enn af Gunnari Smára

Hér skal því enn haldið til haga sem sagt er um Gunnar Smára Egilsson í fjölmiðlum. Í Morgunblaðinu í dag segir:

„Ekki er búið að greiða þeim starfsmönnum sem eiga inni laun hjá Fréttatímanum. Þetta staðfesti Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, en um er að ræða tæpan tug fólks. Undanfarið hefur verið unnið að endurskipulagningu á rekstri blaðsins og hefur endurskipulagningin gengið hægt að sögn Valdimars.

Áheitin aldrei innheimt

Í samtali við mbl.is í gærkvöldi segir Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri og 46% eigandi Fréttatímans og stofnandi Frjálsrar fjölmiðlunar, að peningar sem safnast hafi við stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar hafi aldrei verið innheimtir. „Peningarnir hafa ekki runnið neitt því þeir voru aldrei innheimtir,“ sagði Gunnar Smári spurður hvað hefði orðið um milljónirnar sem söfnuðust. Gunnar segir að áheitin hafi aldrei verið send í banka til innheimtu.“

Til skýringar á því sem segir um áheitin ber að geta þess að í Fréttatímanum undir ritstjórn Gunnars Smára var fullyrt að 10.5 m. kr. hefðu safnast til Frjálsrar fjölmiðlunar með áheitum um 800 manns.