Verkfall „dótakassi“ sósíalista
Samhliða því sem sósíalistarnir í Eflingu skemmta sér vegna verkfallsins síns sitja fulltrúar annarra launþega og ræða kjarasamninga við atvinnurekendur hjá ríkissáttasemjara.
Verkfallsbarátta Eflingar (enskur framburður: ef-lingar) fer fram á ensku eins og birtist á kröfuspjöldum og yfirlýsingum föstudaginn 8. mars, 1. í verkfalli. Miklum gleðidegi Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. „Það var rafmögnuð stemning og baráttugleðin skein úr augum fólks. Maður var hrærður,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, á forsíðu Morgunblaðsins í dag (9. mars) um andrúmsloftið í verkfallinu.
Augljóst er að félagar í Sósíalistaflokki Íslands sem ráða lögum og lofum á skrifstofu Eflingar eftir hreinsanir þar líta á verkfallið og að þeim tókst að virkja lítinn hóp erlendra félagsmanna til verkfalls eins og „dótakassa“. Vegna þessa geti forystusveitin notið sín og gert sér glaðan dag.
Úr Morgunblaðinu laugardaginn 9. mars.
Meirihluti félagsdóms komst að þeirri niðurstöðu að „póstatkvæðagreiðsla“ Eflingar um verkfallsboðun væri lögmæt. Póstatkvæðagreiðslan fór þannig fram að atkvæðabíl var ekið að vinnustöðum fólks, það kallað út til að fá atkvæðaseðla sem síðar var stungið í kassa, þetta kallaðist utankjörstaðaatkvæðagreiðsla. Þá var unnt að greiða atkvæði á skrifstofu Eflingar og einnig rafrænt. Alls voru 7.950 sagðir á kjörskrá, atkvæði greiddu 862 og samþykktu 769 verkfallsboðunina eða 89% þeirra sem greiddu atkvæði.
Engin skýr heimild er í lögum um að þannig sé staðið að boðun verkfalls en meirihluti félagsdóms beitti framsækinni túlkun á greinargerð, anda laganna og ræðu þáv. félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, á þingi 1995-1996 til að dæma Eflingu í vil, Sólveigu Önnu til óblandinnar gleði. Hún réð varla við sig af fögnuði yfir verkfallinu.
Allt er þetta stórundarlegt. Á vefsíðu Eflingar segir að félagsmenn séu um 27.000. Þarna er talað um 7.950 á kjörskrá, aðeins tekst að smala um 11% manna á kjörskrá í atkvæðagreiðsluna þrátt fyrir miklar auglýsingar og beinar, einhliða útsendingar í fréttatímum ríkisútvarpsins. Þegar til kastanna kemur gerist svo allt á ensku sem verkfallið varðar.
Samhliða því sem sósíalistarnir í Eflingu skemmta sér vegna verkfallsins síns sitja fulltrúar annarra launþega og ræða kjarasamninga við atvinnurekendur hjá ríkissáttasemjara. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði réttilega á ruv.is föstudaginn 8. mars:
„Hér [hjá ríkissáttasemjara] er fjöldi verkalýðsfélaga staddur og það væri óskandi að þau verkalýðsfélög sem stigu upp frá samningaborðinu fyrir nokkrum vikum og hófu undirbúning þessara verkfallsátaka kæmu að samningaborðinu á ný í stað þess að hafa málin í þessum átakafarvegi.“