10.6.2018 10:39

Verðlaunaópera - hús yfir listaháskóla

Óperan er vel gerð í öllu tilliti og heppnaðist uppfærsla hennar í Eldborg Hörpu einstaklega vel.

Þeim sem horfðu á sýningu á óperunni Brothers í gærkvöldi (9. júní) eftir Daníel Bjarnason í Hörpu kemur ekki á óvart að sama kvöld skyldi tilkynnt að óperan hefði hlotið dönsku sviðslistarverðlaunin. Reumert-verðlaunin, fyrir óperu ársins í Danmörku.

Óperan er vel gerð í öllu tilliti og heppnaðist uppfærsla hennar í Eldborg Hörpu einstaklega vel en að henni stóðu Íslenska óperan í samstarfi við Jósku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík .

Brothers er um stríð, bræðralag og ástir, reist á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier. Hún var frumsýnd í Árósum í ágúst 2017 við afar góðar viðtökur jafnt áhorfenda sem gagnrýnenda.

Daníel stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg en með hlutverk bræðranna fóru Oddur Arnþór Jónsson og Elmar Gilbertsson. Í öðrum hlutverkum voru Marie Arnet, Þóra Einarsdóttir, James Laing, Jakob Zethner, Hanna Dóra Sturludóttir, Selma Buch Ørum Villumsen og Paul Carey Jones. Kór Íslensku óperunnar leiddi söguþráðinn áfram í anda grísku harmleikjanna. Leikstjórn var í höndum Kaspers Holtens, leikmyndina gerði Steffen Aarfing og lýsingu hannaði Ellen Ruge.

1051833Frá uppfærslu Brothers í Eldborg Hörpu. Ljósmynd Jóhanna Ólafsdóttir.

Var öllum flytjendum innilega fagnað í lok flutningsins. Tónlistin, túlkunin og umgerðin öll gerði harmsöguna að lifandi veruleika án þess að nokkru sinni væri leikið á tilfinningarnar heldur var allt sagt á skýran og einfaldan hátt.

*

Undanfarið hefur nokkrum sinnum í fréttum verið sagt frá framkvæmd mála sem eiga rætur í ákvörðunum sem voru teknar í tíð minni sem menntamálaráðherra fyrir 20 árum. Þar má til dæmis nefna nýgerðan samning ríkisins við Microsoft sem fjármálaráðherra telur að spari ríkissjóði 200 milljón kr. útgjöld. Þá bárust fréttir frá Egilsstöðum um framkvæmdir við menningarhús þar. Upphaf þess máls má rekja til ársbyrjunar 1999 þegar ákveðið var að ríkið styddi byggingu menningarhúsa á nokkrum stöðum á landinu á sama tíma og ákveðið var að reisa tónlistarhús í Reykjavík, húsið sem síðan varð að Hörpu.

Eitt þeirra mála sem nefnd eru reglulega sem óleyst og virðast talin á ábyrgð ríkisins er að ráðast í framkvæmdir við hús yfir Listaháskóla Íslands. Um það mál voru gefnar skýrar yfirlýsingar þegar gengið var til þess eftir langvinnar umræður að stofna skólann sem sjálfseignarstofnun. Skólinn fékk í heimanmund húsið í Laugarnesi sem Sláturfélag Suðurlands reisti fyrir um það bil 30 árum og ríkið hafði eignast nokkrum árum fyrir stofnun skólans.

Stjórnendum skólans leist ekki á að flytja starfsemi skólans í húsið meðal annars með þeim rökum að það væri of langt frá kaffihúsum. Lengi var leitað að samastað fyrir skólann og í lok nóvember 2007 var tilkynnt að hann risi við á Frakkastígsreit við Laugaveg og teygði sig niður að Hverfisgötu og jafnvel yfir hana. Þetta skyldi verða einkaframkvæmd. Ekkert varð af henni vegna hrunsins.

Af ræðum núverandi rektors listaháskólans mætti ráða að það væri alfarið undir ríkinu komið að reisa skólanum húsnæði. Hafa verið gerðir nýir samningar um þetta milli ríkisins og skólans? Liggur fyrir vilji stjórnenda og eigenda skólans um hvar hann á verða til frambúðar?