14.10.2022 9:23

Verðfelling ríkisborgararéttar

Verðfelling ríkisborgararéttarins á þennan hátt snertir þó alla íslenska ríkisborgara og hvern þann sem ber íslenskt vegabréf.

Öllum er ljóst að rúmlega sjö milljónir Úkraínumenn sem leita sér skjóls í öðrum löndum undan stríðsglæpamönnunum sem stjórna rússnesku vígvélinni gera það af illri nauðsyn til að bjarga lífi og limum. Um það er ekki ágreiningur að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að minnka neyð þessa fólks.

Á framkvæmd útlendingastefnunnar er hins vegar önnur hlið sem liggur í þagnargildi vegna þess meðal annars að af heift er ráðist að þeim sem hreyfa henni. Fúkyrði eru ekki látin duga heldur er efnt til mótmæla og gerður aðsúgur að einstaklingum, embættismönnum og opinberum stofnunum.

727261Afgreiðsla alþingis á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt er til þess fallin að verðfella hann og koma óorði á íslensk vegabréf.

Í dag (15. október) birtir Morgunblaðið frétt þar sem vinnubrögðum alþingis er lýst án þess þó að segja söguna alla um frekjuna sem píratar hafa beitt á alþingi til að þröngva afgreiðslu umsókna um ríkisborgarétt í þann farveg sem þeim er þóknanlegur.

Í blaðinu er sagt frá því að útlendingastofnun hafi upplýst dómsmálaráðuneytið um að aðeins tveir af þeim 12 sem alþingi veitti ríkisborgararétt með lögum í júní 2022 hafi uppfyllt búsetuskilyrði, þar af hafði helmingurinn aldrei átt lögheimili hér á landi og a.m.k. einn hafði ekki sannað á sér deili auk þess sem verulegur vafi var um aldur viðkomandi. Þá hafði í einu tilviki biðtími vegna brota ekki verið liðinn og í öðru tilviki var einstaklingur sem fékk ríkisborgararétt á boðunarlista fangelsismálastofnunar. Í apríl 2022 fengu 19 ríkisborgararétt með lögum og uppfylltu fæstir búsetuskilyrði og tveir höfðu áður fengið synjun hjá útlendingastofnun, annar vegna fjárnáms og hinn vegna skorts á gögnum og vegna þess að ekki var sýnt fram á dvöl hans á Íslandi frá 2019. Þá fengu þrír ríkisborgararétt í það skipti sem ekki höfðu sannað á sér deili.

Engin greinargerð fylgir frá alþingismönnum við afgreiðslu á réttinum til að verða íslenskur ríkisborgari. Verðfelling réttarins á þennan hátt snertir þó alla íslenska ríkisborgara og hvern þann sem ber íslenskt vegabréf. Fulltrúar annarra ríkja auk útsendara glæpasamtakanna sem skipuleggja smygl á fólki fylgjast náið með afgreiðslum af þessu tagi. Sölumenn smyglferða á milli landa gleðjast að sjálfsögðu, þeir hækka gjald sitt fyrir að koma fólki til Íslands. Í ýmsum löndum stundar ríkisvaldið sölu á vegabréfum og ríkisborgararétti. Hér er sölumennskan í höndum annarra en alþingismenn veita réttinn.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður segir síðan frá því í grein í Morgunblaðinu í dag hvernig úrskurðarnefnd útlendingamála stundar „skapandi lagatúlkun“, tekur „sér bæði lagasetningar- og fjárveitingavald“ til að veita Venesúelabúum hér alþjóðlega vernd vegna þess að í landi þeirra sé „alvarlegt efnahagsástand þar sem laun [dugi] ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni...“

Einar segir réttilega:

„Efnahagsvandi heimsins verður ekki leystur, ekki einu sinni minnkaður, með því að skilgreina efnalítið fólk sem flóttamenn. Og vandi flóttamanna eykst auðvitað með útþynningu hugtaksins. Það sér hver maður með heila hugsun.“

Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er markvisst verðfelldur hér samhliða ríkisborgararéttinum.