Verðbólga, lóðaskortur og borgarlína
Kröfuna um þetta neitunarvald reisti Dagur B. á því að með lóðum í nágrannabyggðum yrði vegið að þéttingu byggðar í Reykjavík og þar með einnig að byggð í nágrenni borgarlínunnar.
Umræður um stjórnmál vakna og verða líflegri með hverjum deginum sem líður.
Verðbólga hefur leitt til hækkunar stýrivaxta sem dregur úr framkvæmdum, m.a. við húsnæðisframkvæmdir. Verðbólgan á ekki síst rætur í hækkun á húsnæðisverði. Þetta er vítahringur sem stafar af skorti á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (31. ágúst) upplýsir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, að Dagur B. Eggertsson, þáv. borgarstjóri, hafi árið 2015 knúið í gegn að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykktu að aukið lóðaframboð eins þeirra yrði að hljóta samþykki hinna. Með því fékk hvert sveitarfélaganna neitunarvald til að hindra breytingar á svokölluðum vaxtarmörkum á svæðinu.
Ásdís segir réttilega að vegna fólksfjölgunar frá 2015 séu þágildandi vaxtarmörk úrelt og nú vilji Kópavogsbær, Hafnarfjörður og Garðabær „stækka vaxtarmörkin“. Mosfellsbær er nú eins konar útibú vinstri meirihlutans í Reykjavík og leggur blessun sína yfir allt sem þaðan kemur.
Kröfuna um þetta neitunarvald reisti Dagur B. á því að með lóðum í nágrannabyggðum yrði vegið að þéttingu byggðar í Reykjavík og þar með einnig að byggð í nágrenni borgarlínunnar.
Árið 2022 var gert ráð fyrir að brú yfir Fossvog yrði tilbúin í árslok 2024 og vagnar borgarlínunnar milli Hamraborgar og Háskóla Íslands byrjuðu að aka 2025. Hönnun brúarinnar er ekki lokið - eða hvað?
Þessi stefna meirihlutans í Reykjavík lagði grunn að lóðaskorti og háu húsnæðisverði og þar með hækkun verðbólgu.
Umræðurnar um borgarlínuna, sem aldrei verður í þeirri mynd sem kynnt var 2015, hafa stórskaðað alla uppbyggingu og jafnvægi í byggð og umferð á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er öllum ljóst sem kynna sér gögn að baki samgöngusáttmálanum sem nú ber hátt þegar tekist hefur að greina betur kostnað við hann og birta nýjar tölur, þær eru nú 311 milljarðar króna vegna framkvæmda til 2040.
Aðferðir Dags B. við að skjóta sér undan ábyrgð á ákvörðun sinni um að hann fengi orlofsfé greitt fyrir 10 ár þegar hann flutti sig úr einni stöðu í aðra í æðstu stjórn borgarinnar sannar enn kappsemi hans við að leita annarra sökudólga. Sama sjálfsbjargarviðleitni einkennir allt tal hans um að húsnæðisskorturinn og þar með verðbólgan eigi ekki rætur í lóðaskorti undir hans forystu.
Samgöngusáttmálinn er ekki annað en umsamin skilgreining á samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu, sem eru löngu tímabærar, og mat á kostnaði við þær. Það þarf sterkari rök til að vera andvígur slíku plaggi en að leggja það fram. Þeir sem vilja ekki plaggið verða að kynna aðra áætlun.
Vandinn felst í að framkvæma smáa letrið, forgangsraða til að losa um augljósa umferðarhnúta sem fyrst (til dæmis með snjallumferðarljósum) og finna hagkvæmasta grundvöll almenningssamgangna.
Á meðan þeir ráða ferðinni í Reykjavíkurborg sem heimta að stofnað sé til lóðaskorts í nafni borgarlínu geta menn rétt ímyndað sér hvaða ráðum þeir beita í þágu borgarlínu við framkvæmd samgöngusáttmálans. Það er þar sem vandinn liggur. Þeir sem átta sig ekki á því eru úti að aka án þess að vita hvert ferðinni er heitið.