16.12.2022 9:44

Velvild til sölu á þingi

Ríkisvaldið tryggir RÚV á silfurfati um sjö milljarða króna fyrir utan alls konar önnur forréttindi. Að samkeppniseftirlitið skuli ekki að eigin frumkvæði hefja rannsókn vegna þessa er forkastanlegt.

Á árum áður var stuðningur ríkisvaldsins við dagblöðin fólgin í kaupum á ákveðnum eintakafjölda. Morgunblaðið er nú eina dagblaðið í áskrift, þá er Viðskiptablaðið áskriftarblað. Einnig er unnt að fá Bændablaðið, sem kemur út á tveggja vikna fresti, í áskrift, það liggur þó samhliða frammi til ókeypis dreifingar á ýmsum fjölförnum stöðum, í verslunum og sundlaugum. Fríblaðið, Fréttablaðið, liggur einnig frammi á svipuðum stöðum og Bændablaðið. Hafa verið hannaðir sérstakir kassar til að athygli dragist að blaðinu (sjá mynd).

IMG_6250Þessi gjafakassi Fréttablaðsina er í anddyri Laugadalslaugar.

Ríkisútvarpið, RÚV, er ríkisrekni risinn meðal íslenskra fjölmiðla. Í grein Óla Björns Kárasonar, þingflokksformanns sjálfstæðismanna, í Morgunblaðinu 14. desember kom fram að á næsta ári, 2023, verði framlög til RÚV um 28% hærri að raunvirði en þau voru fyrir 10 árum, 2013. Í krónum talið er þar um 1.250 milljón króna hækkun að ræða. Hækkunin ein er meira en tvöfalt hærri fjárhæð en lagt er til að renni til einkarekinna fjölmiðla úr ríkissjóði á árinu 2023. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2023 er á lokametrunum á þingi en þar er gert ráð fyrir að RÚV fái 5.710 m. kr, úr ríkissjóði næsta ár. Þessu til viðbótar hefur RÚV frá 2020 árlega fengið 175 m. kr. til að efla leikið íslenskt efni. Við þetta bætast síðan auglýsingatekjur RÚV sem námu á árinu 2021 liðlega tveimur milljörðum króna.

Ríkisvaldið tryggir RÚV á silfurfati um sjö milljarða króna fyrir utan alls konar önnur forréttindi. Að samkeppniseftirlitið skuli ekki að eigin frumkvæði hefja rannsókn vegna þessa er forkastanlegt. Annað eins ójafnvægi í markaðsaðstöðu líðst aðeins við sölu áfengis ­– ÁTVR skilar ríkissjóði þó tekjum. Ríkisútvarpið er hins vegar botnlaus hít á kostnað skattgreiðenda sem eiga engra annarra kosta völ en borga hvort sem þeir hlusta á stöðina eða ekki.

Menningarmálaráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur hefur gjörsamlega mistekist að koma nokkur skikki á þessi mál. Í upphafi árs boðaði hún að RÚV yrði tekið út af auglýsingamarkaði. Það reyndust marklaus orð eins og flest annað sem ráðherrann hefur sagt um fjárhagsmálefni fjölmiðla undanfarin fimm ár.

Sjúkdómseinkenni vandræðagangsins eru mörg. Þau birtust nú síðast í því að flokkssystir ráðherrans í fjárlaganefnd alþingis benti framkvæmdastjóra sjónvarpsstöðvarinnar N4 á að senda styrkumsókn beint til fjárlaganefndar, þar yrði erindinu vel tekið. Greiðvikni meirihluta nefndarmanna var einum um of mikil og breyttist í hneykslanlegt klúður.

Í þingumræðum um klúðrið sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar:

„Þarna er verið að kaupa ákveðna velvild frá einum fjölmiðli og það er bara ekki í lagi.“

Þessi orð minna á umræðurnar á ESB-þinginu um þessar mundir þar sem auðmenn í Qatar keyptu þingmenn í von um að losna við vegabréfsáritanir inn á Schengen-svæðið.

Orð Helgu Völu, þingmanns Samfylkingarinnar, vekja einnig spurningu um hvað búi að baki takmarkalausu örlæti alþingismanna í garð RÚV.