25.3.2021 10:16

Veirustríðið harðnar

Í átökum við veiruna verða yfirvöld að vega og meta áhættu við ákvarðanir sínar.

Hörðustu sóttvarnaaðgerðir hér á landi til þessa vegna COVID-19-faraldursins tóku gildi á miðnætti. Neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað og Landspítalinn er kominn á hættustig. Sóttvarnaaðgerðirnar gilda í þrjár vikur.

Almennt mega ekki fleiri en tíu koma saman. Trú- og lífsskoðunarfélög mega þó taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns. Að meginreglu gilda þessar reglur fyrir alla nema börn sem fædd eru 2015 eða síðar.

Þessi nákvæma skráning á þeim sem sækja fleiri en 10 manna athafnir fellur að því markmiði yfirvalda að unnt sé að rekja ferðir fólks í leit að smitberum. Hvarvetna þar sem bólusetning dregst á langinn er sýnataka og rakning talin besta vörnin gegn veirunni.

Leiknin við sýnatöku og rakningu er mikil hér á landi en þó er netið ekki það þéttriðið að ekki sleppi einhverjir í gegn. Verði þeir of margir eins og nú er orðið verður að þrengja svigrúm veirunnar.

Nú berast fréttir um að smit hafi fundist í fjórum grunnskólum Reykjavíkur en allt til þessa hafa grunnskólar verið opnir enda sóttvarnalæknir sagt að smit bærist ekki í börn. Það breyttist með svonefndu bresku afbrigði veirunnar, að sagt er, afbrigðið sækir nú í sig veðrið hér.

Sóttvarnalæknir sagði miðvikudaginn 24. mars að ekki væri gerð krafa um lokun leikskóla, af því yrði alltof mikil röskun til dæmis meðal heilbrigðisstarfsfólks. Í dag, fimmtudaginn 25. mars, birtast mótmæli leikskólakennara sem telja of nærri sér vegið með þessari ákvörðun. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í Kastljósi miðvikudaginn 24. mars:

„Þetta eru umfangsmiklar aðgerðir. Við erum að leggja allt samfélagið að veði til að ná utan um þessa bylgju. Þess vegna er ég svolítið ósáttur við það að við skulum halda leikskólum opnum. Vegna þess að þó svo að börn smitist síður en fullorðnir, þá smitast þau samt. Þó þau verði minna lasin, þá verða þau samt lasin.“

56876543_303Angela Merkel á í vök að verjast.

Í átökum við veiruna verða yfirvöld að vega og meta áhættu við ákvarðanir sínar. Angela Merkel Þýskalandskanslari ætlaði að skella Þýskalandi í lás 1. til 5 apríl, það er yfir páska, þá yrði hert á sóttvarnareglum sem gilda til 18. apríl. Var þetta tilkynnt þriðjudag 23. mars en daginn eftir dró Merkel í land, baðst afsökunar á að hafa boðað of harkalegar aðgerðir. Vissulega væri baráttan við veiruna erfið en með páskalokuninni hefði verið gengið of langt.

Varkárasti stjórnmálamaður Evrópu sá að gengið var of nærri þjóð sinni og dró í land. Merkel glímir við sama vandamál og íslensk stjórnvöld að hafa misreiknað sig varðandi bóluefnið, hún veðjaði þar á Brusselmenn sem vita ekki sitt rjúkandi ráð og flýja í faðm lögfræðinganna sem skoða regluverkið og mæla með útflutningsbanni á bóluefni! Banni sem var augljóslega marklaust frá upphafi og niðurlægjandi fyrir ESB.