20.3.2020 10:48

Veirustríðið harðnar

Hér eru aðeins nokkur dæmi af sífellt daprari fréttum um útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Fyrir áhugamenn um sögu EES-samstarfsins er nauðsynlegt að halda til haga að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi fimmtudaginn 19. mars 2020 við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og fékk staðfest að viðskiptahindranir sem ESB setti vegna Covid-19 veirunnar næðu ekki til EES/EFTA-ríkja. Sjá fréttatilkynningu hér.

Slíkar viðskiptahindranir hefðu brotið gegn framkvæmd EES-samningsins í meira en aldarfjórðung.

Hitt er síðan annað mál hvort unnt er að fá öndunargrímur og önnur varnartæki gegn veirunni í Evrópu. Þar hefur verið fylgt stefnunni sem kennd er er við just in time economy og reist er á að flutningaleiðir frá birgjum lokist ekki og þeir geti látið í té vörur þegar um er beðið.

Sama dag og Katrín ræddi við Ursulu ákvað framkvæmdastjórn ESB að koma á fót birgðastöð fyrir andlitsgrímur, tækjabúnað vegna gjörgæslu, öndunarvélar og önnur lækningatæki til að létta undir með aðildarríkjunum.

D20186783386df210eba536e97762a81c31a9b57936f4bf39ce097e83d8043ceÁ fyrstu stigum útbreiðslu veirunnar í Evrópu bárust fréttir frá Þýskalandi um að yfirvöld þar ætluðu að sjá til þess að nóg væri til á heimamarkaði áður en flutt yrði til annarra landa. Þýska efnahagsmálaráðuneytið tilkynnti miðvikudaginn 18. mars að það hefði gefið út útflutningsleyfi á lækningabúnaði til Ítalíu, Sviss og Austurríkis. Fyrstu 400.000 andlistgrímurnar frá Þýskalandi bárust til Ítalíu 19. mars.

Ursula von der Leyen sagði miðvikudaginn 18. mars að Kínverjar hefðu boðið Evrópubúum 2,2 milljónir andlitsgrímur og 50.000 tæki til skimunar.

Í Bretlandi hvatti heilbrigðisráðherrann í morgun (20. mars) fyrrverandi starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar (NHS) til að koma til starfa og aðstoða þá sem nú vinna að því á vegum þjónustunnar að berjast við veiruna. Bresk stjórnvöld hafa skilgreint þá hópa í samfélaginu sem gegna lykilstörfum við þessar aðstæður.

Sænsk heilbrigðisyfirvöld segja lækna kunni að standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um forgangsröðun sjúklinga. Þau hafa þess vegna ráðið heimspekinga til að móta nýjar siðfræðilegar leiðbeiningar. „Það skiptir æ meira meira máli að vita hvar draga eigi mörkin við forgangsröðun og gæta þess að geðþóttasjónarmið ráði ekki við slíkar ákvarðanir,“ segir sænski heimspekingurinn Lars Sandman, prófessor í heilbrigðissiðfræði.

Að kvöldi fimmtudags 19. mars höfðu tólf manns dáið í Svíþjóð vegna veirunnar og rúmlega 1.400 voru úrskurðaðir smitaðir.

Hér eru aðeins nokkur dæmi af sífellt daprari fréttum um útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Nú berast fréttir frá Kína um að önnur bylgja veirunnar kunni að skella á Kínverjum eftir að því var fagnað fyrir tveimur dögum að ekki hefðu verið greind ný tilvik á heimavelli í Kína.

Þetta er reist á áreiðanlegum miðlum en í öllum löndum vara yfirvöld við falsfréttum og upplýsingafölsunum á samfélagsmiðlum og annars staðar. Ein þessara sögusagna er að það slái á veiruna og jafnvel drepi hana að borða ís. Því miður ekki rétt. Einfaldasta ráðið er að halda sér til hlés og muna eftir handþvottinum.