Veiran sigrar ríkisrekstur
Samkvæmt þessu erum við háð duttlungum veirunnar og þurfum að læra að lifa með henni, bólusett en með eða án grímu, vonandi að eigin vild.
Vísindaritstjóri The Telegraph, Sarah Kapton, birtir grein nú um helgina um óvissu og ágreining um hvernig og hvers vegna kórónuveiran berst á milli manna. Við séum í svipuðum sporum og fyrir 600 árum. Menn stóðu ráðalausir gagnvart nýjum faraldri, hann hlyti að vera frá stjörnunum og ítalska orðið influenza kom til sögunnar.
Þrátt fyrir tæplega tveggja ára vísindarannsóknir sem getið hafi af sér fjölda bóluefna og lyfja til að takast á við veiruna viti enginn með vissu hvernig hún dreifist og hvernig eigi að stöðva hana. Til þess megi rekja stöðugar umræður um hvort nota beri grímur eða ekki.
Verði komist að öruggri niðurstöðu um hvernig veiran berst frá einum manni til annars er unnt að mæla með ráðstöfunum til að rjúfa smitleiðir og láta af aðgerðum sem eru í raun tilgangslausar. Af greininni má ráða að röksemdir fyrir því að veiran berist í loftinu séu svo veikar að ólíklegt sé að grímur séu til nokkurs gagns utan dyra, í vel loftræstum rýmum og þar sem fólk er ekki í náinni snertingu hvort við annað. Smitleiðin í lofti er ekki útilokuð þótt líklegra sé að um snertismit sé að ræða og þess vegna skipti handþvottur og hreinlæti mestu.
Greinarhöfundur bendir á að frá því að sóttvarnareglur voru afnumdar í Bretlandi 19. júlí hafi smitum ekki fjölgað þar eins og líklegt hefði verið ef grímur væru helsta vörnin gegn smiti. Þvert á móti hafi smitum stöðugt fækkað.
Einn þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa mismunandi kenningar um smitleiðir veirunnar er Tom Jefferson, prófessor í Oxford. Hann segir að allar rannsóknir varðandi þetta séu af litlum gæðum og umræðurnar mótist af hugmyndafræðilegum yfirborðskenningum sem skorti vísindaleg rök. Vírusinn virðist fara eftir Farr-lögmálinu um að faraldrar rísi og hnigi eins og samhverft bjöllu línurit. „Ég er ekki sannfærður um að hegðun faraldursins ráðist mikið af inngripum okkar,“ segir prófessorinn í lok greinarinnar.
Samkvæmt þessu erum við háð duttlungum
veirunnar og þurfum að læra að lifa með henni, bólusett en með eða án grímu,
vonandi að eigin vild.
Rauði krossinn heldur úti sóttkvíarhótelum og lagar sig snurðulaust að sveiflum faraldursins (mynd: Rauði krossinn).
Önnur viðbrögð þurfa á hinn bóginn ekki að ráðast af áróðurskenndri hugmyndafræði, þar er unnt að styðjast við haldgóð rök og reynslu.
Dapurlegar fréttir um hremmingar Landspítalans ættu loksins að sannfæra alla um hve óskynsamlegt er að halda öllum sjúkrahúsrekstri í greip ríkisins. Bréfaskriftir starfsmanna bráðamóttöku til fjármálaráðherra vegna ástands á vinnustað þeirra sýnir best í hvert óefni er komið. Einkennið blasir við öllum og ekki verður við neitt ráðið nema létt sé á tökum ríkisins á sjúkrahúsrekstri. Allir virðast sammála um að óbreytt ástand sé óþolandi. Svarið er eitt: rýmka athafnafrelsi einstaklinga og treysta á framtak þeirra.
Gylfi Þór Þorsteinsson er forstöðumaður sóttvarnarhúsa Rauða krossins. Samtöl við hann vegna sveiflna í faraldrinum bera allt annað yfirbragð en þeirra sem tala fyrir hönd ríkissjúkrahúsanna. Hann er lausnamiðaður í yfirlýsingum sínum, hinir virðast rígfastir í kerfisfjötrum ríkisrekstrar.