24.4.2020 12:22

Veiran breytir heimsmyndinni

Vegna þess hve skipulega og vel var snúist gegn veirunni hér á landi hefur Ísland áunnið sér traust.

Icelandair er hluti íslensks þjóðaröryggis. Keppikefli er að félagið sé áfram einkarekið, ríkisrekstur á evrópskum flugfélögum er víti til að varast.

Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair og stýrir félaginu við þessar einstaklega erfiðu aðstæður. Á mbl.is má í dag (24. apríl) lesa þetta eftir honum haft:

„Við þurfum að sækja nýtt fjármagn inn í félagið til þess að komast í gegnum þetta. Ég er bjartsýnn fyrir hönd Íslands sem ferðamannalands og okkar félags til lengri tíma eftir að ástandinu lýkur. Ég tel að Ísland hafi mjög mörg tækifæri sem ferðamannaland og líka Keflavík og Ísland sem tengimiðstöð alþjóðaflugs á milli norður-Ameríku og Evrópu. Við höfum séð það áður. Ísland og Icelandair hafa komið vel út eftir krísur.“

Þarna birtist sá baráttuandinn sem nauðsynlegur þegar tekist er á við það risavaxna verkefni sem við blasir á komandi vikum og mánuðum þegar þotuhreyflarnir fara af stað að nýju.

1185992Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. (Mynd: Árni Sæberg mbl.is.)

Vegna þess hve skipulega og vel var snúist gegn veirunni hér á landi hefur Ísland áunnið sér traust.

Niall Ferguson, heimsfrægur sagnfræðingur, birti grein um kórónaveirustríðið í breska vikuritinu The Spectator (dags. 15. apríl). Þar nefnir hann að á nýjum Global Health Security Index í fyrra hafi Bandaríkin skipað efsta sæti og Bretland annað sæti með vísan til „global health security capabilities“ landanna. Nú hafi Deep Knowledge Group gert nýjan lista yfir heilsufarslegt öryggi með vísan til COVID-19 og þar séu Ísrael, Singapúr, Nýja Sjáland, Hong Kong og Tævan sett í efsta sæti. Niall Ferguson bætir við innan sviga: (Iceland deserves an honourable mention, too.) „Það ætti einnig að heiðra Ísland með því að nefna það til sögunnar.“

Ferguson segir að þeim sem mest láti að sér kveða í heiminum, Kína, Bandaríkin og ESB, hafi öllum farnast illa vegna veirunnar, hver á sinn sérstaka hátt. Hann spyr, hvað verði. Augljóslega sé líklegra að Trump tapi forsetakosningunum í nóvember en Xi Kínaforseta verði ýtt frá völdum. Joe Biden, frambjóðandi demókrata, sem nú njóti stuðnings Baracks Obama, sé Mr. Normalcy. Hann þurfi aðeins að gæta þess að deyja ekki. Kínverjar tækju sigri Bidens fagnandi. Stóra spurningin sé hver tæki við af Biden ef honum entist ekki aldur.

Spá Fergusons er að við leit að sigurvegurum eftir að faraldurinn er að baki eigi að líta til ríkja eins og Ísraels, Singapúrs og Tævans en ekki stórþjóðanna. Í heimsfaraldri komi í ljós að small is beautiful. Hann telur að í einsflokksríki eins og Kína verði mun erfiðara að sigrast á eftirköstum faraldursins en í fjölflokkaríki eins og Bandaríkjunum, sambandsríki þar sem þörf sé að draga úr miðstýringu. Bandaríkjamenn geti tekist á við tvo stærstu gallana á eigin kerfi: óreiðuna milli stjórnmála og skemmtanabransans (sem gat af sér Trump) og krónísku djúpríkis-veikina ( sem gat einnig af sér Trump).

Hvort þessi spá rætist kemur í ljós. Eitt er víst að efnahagslegur og stórpólitískur eftirleikurinn verður ekki síður sögulegur en átökin við faraldurinn. Þar þurfa Íslendingar eins og aðrir að nýta tækifæri sem gefast án þess að fórna grunngildum stjórnarfars síns.