14.11.2021 10:47

Veikur púls frá Glasgow

Kjarni samkomulagsins er að unnið skuli að því að draga úr notkun kola og hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.

Hitinn var 12,5°C um 14.30 laugardaginn 13. nóvember í Fljótshlíðinni en nokkrum klukkustundum síðar lauk loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow með samkomulagi sem virðist ekki gleðja neinn en er þó talið halda lífi í markmiðinu sem sett var í París að meðalhiti jarðar hækki ekki meira en um 1,5°C. Spáð er að hækkunin verði allt að 2,4°C. Ríki skuldbinda sig til að segja á næsta ári hvernig 1,5°C markinu verði náð.

88700Klappað fyrir forseta ráðstefnunnar og niðurstöðunni.

Kjarni samkomulagsins er að unnið skuli að því að draga úr notkun kola og hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Á lokaskrefum ráðstefnunnar varð þetta niðurstaðan en fram á síðustu stundu vildu margir að þessi markmið yrðu þau að horfið yrði frá notkun kola en dregið yrði úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Kínverjar og Indverjar nýta kol mest allra þjóða sem orkugjafa.

Indverjar börðust fyrir niðurstöðunni sem náðist. Breski íhaldsmaðurinn Alok Shama, forseti ráðstefnunnar, lagði í lokaorðum sínum áherslu á að það markmið hefði náðst að „að halda lífi í 1,5“ en áréttaði jafnframt að enn væri erfið leið að markinu fram undan. Hann sagði:

„Við getum á trúverðugan hátt sagt að okkur tókst að halda 1,5 gráðunum á lífi. Púlsinn er hins vegar veikur og aðeins er unnt að tryggja markmiðinu líf ef við stöndum við loforð okkar og breytum skuldbindingum snarlega í athafnir.“

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði samkomulagið mikilvægt skref en of lítið. Greta Thunberg, loftslagsaðgerarsinni frá Svíþjóð, sagði sama og fyrir COP26 sem hófst 31. október: „COP26 er lokið. Hér er stutt samantekt: bla, bla, bla.“

Lokafundur ráðstefnunnar var tilfinningaþrunginn og Alok Sharma var klökkur þegar hann bað ráðstefnugesti frá 196 löndum afsökunar á hvernig staðið var að því að breyta orðalaginu varðandi kol og jarðefnaeldsneyti að kröfu Indverja og Kínverja. Fulltrúi Mexíkó sagði að þetta hefði verið gert á „ógagnsæjan hátt í lokuðum hópi“. Þá sagði Shama:

„Ég biðst afsökunar á hvernig ferlið varð. Mig tekur það mjög sárt. Ég skil að vonbrigðin séu mikil en ég held einnig, eins og sagt hefur verið, að það sé lífsnauðsynlegt að við verndum þennan pakka.“

John Kerry, loftslagsfulltrúi Bandaríkjanna, studdi samkomulagið með þeim orðum að ekki ætti að láta kröfuna um að allt væri fullkomið breytast í óvin þess sem væri gott. Á ráðstefnunni vann hann að tvíhliða samkomulagi við Xie Zhenhua, fulltrúa Kína. Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti efna til fjarfundar mánudaginn 15. nóvember.

Það sem hér er sagt snýr aðeins að því sem gerðist á lokastigi Glasgow-ráðstefnunnar. Mun meira hangir á spýtunni. Unnið var að lokagerð „reglubókar“ um hvernig unnið skuli að markmiðunum sem sett voru 2015 í París 2015 og enn eru í gildi innan loftslagsramma Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnvöldum einstakra landa er skylt að skýra borgurunum frá því undanbragðalaust hvað felst í skuldbindingunum frá Glasgow og án þess að lýsingarnar séu færðar í einhvern flokkspólitískan búning.