5.8.2019 10:23

Veik rök fyrir ríkisútvarpi

Það var viðtekin skoðun að ríkið yrði að reka útvarp vegna tækninnar og jafnframt hitt að í því fælist öryggi að ríkið stæði að baki þessum rekstri. Í þeirri kenningu felst blekking.

Sumarhefti tímaritsins Þjóðmála sá dagsins ljós í fyrri viku. Efnið er fjölbreytt að vanda. Forsíðuna skreytir mynd af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilefni af löngu viðtali við hana heftinu.

Hún er meðal annars spurð um eilífðarmál íslenskrar fjölmiðlunar, sérstöðu ríkisútvarpsins gagnvart einkareknum miðlum. Reynslan kennir að tæknilegar framfarir ráði engu um afstöðu manna til ríkisrekinna fjölmiðla.

Það var viðtekin skoðun að ríkið yrði að reka útvarp vegna tækninnar og jafnframt hitt að í því fælist öryggi að ríkið stæði að baki þessum rekstri. Í þeirri kenningu felst blekking. Takist að slökkva á raforkukerfum sitja allir miðlar við sama borð. Ríkið hefur enga sérstöðu í því efni. Þá hafa framfarir í símtækni og boðunarkerfum orðið til þess að hlutur útvarpsstöðva í sambandi við hamfarir er allt annars eðlis og mun minni en áður var.

2019.02-SumarheftiÍ viðtalinu í Þjóðmálum kemur fram hjá ráðherranum að stjórnarflokkarnir séu ekki samstiga í afstöðu sinni til fjölmiðlafrumvarps sem ráðherrann hefur kynnt.

Ráðherrann segir: „Ég mun ekki styðja þá stefnu að Ríkisútvarpið veikist, fari svo að ákveðið verði að taka það af auglýsingamarkaði. Ríkisútvarpið hefur stutt vel við íslenska menningu og tungu. Traust til RÚV er mikið og hlustun á Rás 1 hefur vaxið.“

Þarna eru kynntar þrjár meginröksemdir fyrir því að verði ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði skuli tekjutapið bætt með hærri álögum á skattgreiðendur: stofnunin hafi stutt vel við íslenska menningu og tungu, hún njóti trausts og hlustun á Rás 1 hafi vaxið.

Óhjákvæmilegt er að brjóta þessar röksemdir til mergjar. Hafi ríkisútvarpið stutt vel við íslenska menningu og tungu eins og ráðherrann orðar það má spyrja hvort svo sé enn þann dag í dag. Við hvaða óhlutdrægt mat styðst fullyrðingin? Er þetta eitthvað sem hver endurtekur eftir öðrum eins og fullyrðinguna um öryggishlutverkið áður fyrr? Þegar litið er til traustsins ber þess jafnframt að geta að vantrausti er mjög oft lýst með skýrum rökum. Þarna er einnig þörf á greiningu. Hvað býr að baki fullyrðingunni um að hlustun á Rás 1 hafi aukist? Niðurstöður þeirra mælinga verður að sýna. Kostnaður við rekstur Rásar 1 er aðeins brotabrot af kostnaði við rekstur ríkisútvarpsins. Hvers vegna er aðeins nefnd til sögunnar aukning á hlustun þar?

Mennta- og menningarmálaráðherra stendur frammi fyrir erfiðum kostum þegar rætt er um hlut ríkisvaldsins á fjölmiðlamarkaði. Þeir eru erfiðir af því að það er síður en svo sjálfgefið að ríkið standi sjálft í slíkum rekstri þegar rökin fyrir því eru ekki sterkari en að ofan er lýst. Ríkið getur tryggt að öll þessi markmið náist (fyrir utan hlustun á ríkisrás 1) án ríkisreksturs og fyrir mun minna opinbert fé en nú rennur til ríkisútvarpsins.

Ekki eru boðaðar róttækari tillögur en nú eru til umræðu af flokkspólitískum ástæðum. Það er talið til vinsælda fallið meðal kjósenda að standa vörð um ríkisútvarpið og stofnunin snýst hart til varnar fyrir sig og sína telji hún að sér vegið.