Vegið að sérsveitinni
Það er engin tilviljun að hér hefjist eitthvert væl þegar rætt er um skotheld vesti fyrir lögreglumenn, vopn fyrir lögreglumenn eða eflingu sérsveitarinnar svo að ekki sé minnst á auknar rannsóknarheimildir.
Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins vakti máls á gríðarlega mikilvægu öryggishlutverki sérsveitar ríkislögreglustjóra á alþingi þriðjudaginn 29. apríl.
Hann sagði að útköll sérsveitarinnar hefðu tólffaldast á tíu ára tímabili, árið 2023 hefðu þau verið 461 talsins. Vopnuð útköll voru alls 2.141 á árunum 2013–2023.
Jens Garðar efaðist réttilega um að þingheimur eða almenningur gerði sér fyllilega grein fyrir umfangi og verkefnafjölda sveitarinnar. Það hefði vakið mikla undrun hans að hætt hefði verið við inntökupróf í sérsveitina nú í sumar vegna fjárskorts. Í nýlegri frétt ríkisútvarpsins hefði komið fram að um 50 lögreglumenn hefðu verið við þjálfun síðastliðið ár til að þreyta inntökuprófið nú í sumar. Í dag væru 47 í sérsveitinni en ættu að vera 56.
Jens Garðar minnti á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu „farið mikinn og barið sér á brjóst varðandi það að fjölga í lögreglunni og auka fjármagn til öryggis- og varnarmála“. Fagnaði hann því en sá boðskapur kæmi ekki heim og saman við fréttir um að ekki væri hægt að fullmanna sérsveitina vegna fjárskorts.
Taldi hann fullvíst að allur þingheimur tæki undir með sér þegar hann hvatti dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra til að taka sig saman í andlitinu og kippa þessu máli strax í liðinn með því að inntökuprófin yrðu í sumar og sérsveitin þar með fullmönnuð.
Sérsveitarmenn að störfum í Reykjavík (mynd:mbl.is/Eggert Jóhannesson).
Ráðherrar dómsmála og fjármála koma úr Viðreisn en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, er skelegg í málflutningi sínum um að tryggja skuli öryggi lands og þjóðar á þeim miklu óvissutímum sem nú ríkja.
Eitt er að gera það í samvinnu við aðra vegna þeirrar ógnar sem að okkur steðjar að utan, hitt hefur þó jafnan verið brýnna og beinna verkefni íslenskra stjórnvalda að tryggja innra öryggið; sjá til þess að lögregla og aðrir öryggisaðilar starfi við þær aðstæður að þeirra eigið öryggi sé tryggt svo að þeir geti sinnt almennum störfum sínum í þágu borgaranna á skilvirkan hátt.
Fréttum fjölgar þar sem sagt er frá því að sérsveitarmenn séu kallaðir á vettvang til starfa við hlið almennra lögreglumanna, einmitt vegna þess að þjálfun sérsveitarmanna og búnaður er af öðrum toga en lögreglunnar við almenn störf. Fréttirnar bera með öðrum orðum með sér að starfsumhverfi lögreglunnar verði sífellt hættulegra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra tekur varla til máls án orða um að hún ætli að fjölga lögreglumönnum um 50 í ár. Því ber að fagna. Fjölgunin missir þó marks sé ekki öll varnarkeðjan efld – þar með sérsveitin.
Það er engin tilviljun að hér hefjist eitthvert væl þegar rætt er um skotheld vesti fyrir lögreglumenn, vopn fyrir lögreglumenn eða eflingu sérsveitarinnar svo að ekki sé minnst á auknar rannsóknarheimildir. Fælingarmáttur lögreglu er eitur í beinum lögbrjóta og þegar á reynir er sérstakt athugunarefni að sjá hverjir leggjast í lið með þeim til að grafa undan tiltrú til lögreglu og styrks hennar.