16.4.2025 10:06

Vegið að námsárangri

Alþingismenn verða sjálfir að taka afstöðu til þeirra meginatriða sem fylgja skal við innritun nemenda í framhaldsskóla á öðrum grundvelli en námsárangri.

Umræður um íslensk skóla- og menntamál verða sífellt fjarlægari því að styðjast eigi við hlutlæga mælikvarða, mælanlegan árangur og gagnsæja upplýsingamiðlun sem gerir foreldrum og nemendum kleift að leggja mat á árangur í einstökum skólum og stöðu þeirra í skólakerfinu almennt.

Nú ræðst samanburður á skólum af þátttöku í spurningakeppninni Gettu betur, söngvakeppni framhaldsskólanna eða Skrekk, árlegri hæfileikakeppni fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík, og Skólahreysti, íþróttakeppni grunnskóla.

Allt er þetta sýnt í sjónvarpi og vekur þjóðarathygli. Er undrunarefni að þessu efni sé yfirleitt hampað eða það sé leyft undir merkjum skóla miðað við varnaðarorð uppeldis- og skólafræðinga um hættuna af því að einhver skari fram úr í nemendahópnum og skýrt sé frá námsárangri.

491802897_10238046542451265_813856148443878478_nAf ruv,.is Guðrún Ragnarsdóttir og Snorri Másson ræða saman í Kastljósi 15, apríl 2025.

Guðrún Ragnarsdóttir, prófessor í stjórnun menntastofnana við deild menningar og margbreytileika í Háskóla Íslands, sagði í Kastljósi þriðjudaginn 15. apríl:

„Það er rosalega mikilvægt að skólar endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og allar rannsóknir sýna það. Við viljum ekki búa til þessa hópa eða grúbbur, við viljum gefa öllum tækifæri.“ Og hún sagði einnig: „Einkunnir eiga ekki að vera sorteringarmaskína inn í framhaldsskólana.“

Fyrir um aldarfjórðungi var afnumin regla um hverfaskiptingu við innritun í framhaldsskóla og þar með stuðlað að meira frelsi við val á skólum. Augljóst er af fréttum að framhaldsskólar njóta mismikilla vinsælda meðal nemenda. Þeir hafa eigin aðferðir við að leggja mat á skólana.

Nú er til meðferðar á alþingi frumvarp til laga um framhaldsskóla þar sem meðal annars er tekið mið af því áliti umboðsmanns alþingis frá árinu 2010 að það sé í samræmi við stjórnskipan Íslands að löggjafarvaldið taki sjálft afstöðu til þeirra meginatriða sem fylgja skuli við innritun nemenda í framhaldsskóla á öðrum grundvelli en námsárangri.

Það er þess vegna núna á borði þingmanna að taka afstöðu til tillagna í frumvarpinu sem minnka áherslu á námsárangur við innritun í framhaldsskóla.

Lagt er til að við innritunina megi líta til upplýsinga um þátttöku og árangur í óformlegu námi, félagsstarfi og íþróttum og upplýsinga sem varpa ljósi á áhuga nemandans, t.d. hvort viðkomandi skóli sé fyrsta eða annað val hans. Þá er lagt til að heimilt verði að líta til sjónarmiða sem tengjast skólasamfélaginu, þ.m.t. til að vinna gegn einsleitni í nemendahópum. Hér er t.d. átt við að við innritun sé heimilt að líta til kyns og að aðrar reglur gildi um námsárangur þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og taka tiltekinn fjölda nemenda með langvarandi stuðningsþarfir inn í skóla.

Á ensku er skammstöfunin DEI notuð fyrir diversity, equity, and inclusion, það er fjölbreytni, jafnræði og inngildingu við val á fólki til starfa eða nemendum við innritun. Hæfniskröfum er með öðrum orðum breytt í þeim tilgangi að ná ekki endilega bestum árangri á því sviði sem um er að ræða. Trump-stjórnin gerir nú harða atlögu að þessari aðferð og til Bandaríkjanna geta íslenskir þingmenn sótt mikinn fróðleik til að kynna sér rök með og á móti því að beita þessari aðferð þegar þeir ræða hvort lögfesta eigi hana hér á landi