24.2.2020 9:50

Vegið að frábærri hagstjórn

Hagstjórn hefur heppnast frábærlega hér undanfarin ár. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og hagur alls almennings batnað í samræmi við það.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra, vék að því í Silfri ríkisútvarpsins sunnudaginn 23. febrúar hve mikið frávik það væri frá heillavænlegri stefnu í kjaramálum að Efling og BSRB beittu nú verkfallsvopninu. Hann hefði ekki spáð því fyrir níu mánuðum að staðan yrði sú sem nú er vegna aðgerða Eflingar.

Þar stjórnar sósíalísk klíka sem stóð að lífskjarasamningnum í fyrra og fékk hann samþykktan en beitir nú öllum vopnum til að brjóta hann á bak aftur og forysta BSRB ákveður að sigla í kjölfarið.

Bjarni sló á þann áróður að lægst launuðu hóparnir hefðu verið látnir sitja eftir:

„Við höfum verið að stórauka lífskjör þeirra sem eru neðst í launastiganum. [...] Vefurinn [tekjusagan.is] dregur það fram að okkur hefur tekist stórkostlega að bæta lífskjörin á Íslandi og einna best við þá hópa sem helst eru í umræðunni í dag; eldri borgara og þá sem eru neðst í launastiganum,“ sagði hann.

Ríkið hefði náð miklum árangri í kjaraviðræðum sínum t.d. hvað varðar kerfisbreytingu á vaktafyrirkomulagi og styttingu vinnuvikunnar. „Jafnvel þótt að ekkert annað gerðist en menn skrifi undir það sem ríkið hefur lagt á borðið í dag myndum við samt sem áður sjá algjöra tímamótasamninga.“

1191526Bjarni Benediktsson í Silfrinu 23. febrúar 2020 (mynd ruv.is).

Formaður Sjálfstæðisflokksins minnti á að í kjaraviðræðum og við lausn deilumála á þeim vettvangi yrði að viðurkenna „ákveðin lögmál“. Rétt fyrir ofan þá lægst launuðu væri fólk sem spyrði sig alltaf: „Var það þess virði að fara í fimm ára háskólanám? Varð það þess virði að taka námslán?“

Í því felst öfugmæli að hvetja í öðru orðinu til aukinnar menntunar og krefjast þess í hinu að hún sé einskis metin í launum. Að rjúfa sátt um þetta er liður í áróðri klíkunnar innan Eflingar sem náði þar völdum með stuðningi aðeins 8% félagsmanna og varði fyrstu mánuðunum eftir valdatökuna í að hreinsa brott af skrifstofu félagsins alla sem höfðu reynslu af að tryggja félagsmönnum sem best lífskjör.

Hagstjórn hefur heppnast frábærlega hér undanfarin ár. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og hagur alls almennings batnað í samræmi við það. Nú þegar hagkerfið kólnar stendur þjóðarbúið vel að vígi.

Sagan sýnir að á sama hátt og alið er á óraunhæfri kröfugerð á launamarkaði birtast jafnan lukkuriddarar og kynna skyndilausnir sem þeir segja að dugi til að snúa hagsveiflunni í rétta átt eins og hendi sé veifað.

Á sama hátt og kaupmáttur hefur aukist með því að stíga skref fyrir skref án þess að fara fram af bjargbrúninni ber að blása skipulega og ígrundað lífi í atvinnustarfsemina. Talsmenn skyndilausna í því efni eru ekki síður varhugaverðir en sósíalistarnir sem leiða nú Eflingar-fólkið í verkfallsógöngunum.