25.1.2021 9:34

Vegið að fælingarmætti

Það er þó grundvallarþáttur í varnarstefnu NATO að tilvist vopnanna ein dugi til að fæla frá árás á aðildarríkin og koma þannig í veg fyrir notkun þeirra.

Á árum kalda stríðsins héldu andstæðingar NATO og varnarsamstarfsins við Bandaríkin því ítrekað fram að kjarnorkuvopn væru falin í Keflavíkurstöðinni. Margsinnis svöruðu utanríkisráðherrar Íslands fyrirspurnum á alþingi og í fjölmiðlum um þetta mál og höfnuðu þessum fullyrðingum. Eftir brottför varnarliðsins árið 2006 féllu öll húsakynni þess undir íslenskt forræði. Ekki kom neitt í ljós sem staðfestir fullyrðingarnar um tilvist kjarnorkuvopna hér. Þetta var aldrei annað en hræðsluáróður.

Um var að ræða baráttu sem nú mætti kenna við fjölþátta aðgerð (e. hybrid action), að ná einhverju fram með undirróðri. Þannig hefur löngum verið talað um kjarnorkuvopn í von um að aðferðin dugi til að fá þeim útrýmt. Dramatískasta samtal fulltrúa Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um upprætingu kjarnorkuvopna fór líklega fram í Höfða í október 1986 þegar Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust þar.

Því var fagnað 22. janúar 2021 að samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum tók gildi. Hann var samþykktur árið 2017 og nú hafa 50 ríki fullgilt hann. Ísland er ekki í þeim hópi frekar en önnur Norðurlönd og NATO-ríkin. Rökin fyrir þeirri afstöðu eru einföld: á meðan ekkert kjarnorkuveldanna felst á að fara að samningnum verður að vinna að fækkun vopnanna eftir öðrum leiðum.

Úkraínumenn afsöluðu sér kjarnorkuvopnum í trausti þess að Rússar virtu landamæri þeirra. Rússar sviku samning um það með innlimun Krímskaga árið 2014.

Okolnaya-bay-3500x2170Þessi mynd birtist á norsku vefsíðunni Barents Observer og sýnir kjarnorkuvopnastöðvar Rússa á Kólaskaga, skammt frá norsku landamærunum.

Augljóst var föstudaginn 22. janúar að fréttastofa ríkisútvarpsins gekk erinda þeirra sem vilja að íslensk stjórnvöld rjúfi samstöðu Norðurlandanna og NATO-ríkjanna í þessu máli. „Frétt“ strax að morgni 22. janúar sýndi þetta og í kvöldfréttatíma sagði að NATO styddi „notkun“ kjarnorkuvopna. Það er þó grundvallarþáttur í varnarstefnu NATO að tilvist vopnanna ein dugi til að fæla frá árás á aðildarríkin og koma þannig í veg fyrir notkun þeirra. Til þeirra verði aldrei gripið nema í algjörri neyð. Fælingarmáttur vopnanna er staðreynd.

Sunnudaginn 24. janúar ræddi Kristján Kristjánsson, þáttarstjórnandi á Bylgjunni, þetta mál við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, á þeirri forsendu að „eiginlega varla“ þyrfti að ræða það, svo sjálfsögð væri aðild Íslands að „bannsamningi“ SÞ. Var samtal þeirra skýrt dæmi um grunnhyggnina sem einkennir umræður um kjarnorkuvopn hér og birtist í kalda stríðinu í lyginni um að slík vopn væru falin í Keflavíkurstöðinni.

Kristján taldi það til marks um að „standa í lappirnar“ að rjúfa samstöðu Norðurlandanna og NATO-ríkjanna í þessu máli. Hann færði engin efnisleg rök fyrir máli sínu, lét þess í engu getið hvernig öryggi Íslendinga yrði betur tryggt með því að rjúfa þessa samstöðu.

Þrjár stoðir eru undir vörnum Íslands: varnarsamningurinn við Bandaríkin, aðildin að NATO og Norðurlandasamstarfið. Vilji menn brjóta þessar stoðir verður að rökstyðja það með öðru en innantómum slagorðum og sýna hvað komi í staðinn sem tryggi jafnmikið eða meira öryggi.