30.12.2023 10:33

Vegið að EES-samningnum

Nú þegar 30 ár eru liðin frá því að samningurinn tók gildi sameinast þeir um að gera lítið úr honum sem vilja slíta samningnum og fjarlægjast ESB og hinir sem vilja ganga í ESB.

Enn á ný vekur undrun hve áramótagreinar formanna stjórnmálaflokkanna taka lítið mið af því sem gerist umhverfis okkur í öryggismálum og hefur mótandi áhrif á framtíðina. Þetta stafar ef til vill af því að þeir sætta sig við að bregðast því sem verða vill og laga fámennt þjóðfélagið að því. Á þessu viðhorfi er sá galli að hugi stjórnmálamenn ekki í tíma að viðbrögðum við því sem verður sitja þeir ef til vill uppi með lausnir sem skapa meiri vanda en ella væri.

Þetta á greinilega við í útlendingamálum. Hér voru sett lög árið 2016 sem tóku mið af þróun annars staðar í Evrópu. Hún gjörbreyttist þegar við blasti að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði stigið alvarlegt feilspor árið 2015. Hér hefur ekki enn tekist að laga útlendingalöggjöfina að nýjum veruleika og hingað streyma hlutfallslega mun fleiri hælisleitendur en til nokkurs annars norræns ríkis.

Þá er alið á þeirri skoðun hér að íslensk stjórnvöld hafi engin áhrif á mótun regluverksins sem gildir á sameiginlega evrópska markaðnum. Þau séu þar aðeins áhrifalausir þiggjendur og hagsmunir þjóðarinnar séu fyrir borð bornir. Nýjasta dæmið um þennan málflutning birtist í áramótagrein sem Róbert Spanó lagaprófessor birtir í Morgunblaðinu í dag.

Screenshot-2023-12-30-at-10.31.06

Hann vill ræða inngöngu í Evrópusambandið af „yfirvegun og festu“ og bendir réttilega á að aðildin að evrópska efnahagssvæðinu (EES) „hafi gjörbreytt Íslandi til hins betra á undanförnum þrjátíu árum“. Síðan segir prófessorinn sem er fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu:

„En þar [í EES] erum við þiggjendur regluverks sem við tökum ekki beinan þátt í að móta. Það er ein mikilvægasta spurning íslenskra stjórnmála nú um stundir hvort það er ástand sem við sættum okkur við til framtíðar. Er það gott fyrir atvinnulífið? Er það gott fyrir fjölskyldur? Er það gott fyrir einstaklinginn? Stjórnum við í reynd vegferð okkar við þessar aðstæður?“

Allar eru þessar spurningar reistar á röngum forsendum. Það er einfaldlega rangt að „við tökum ekki beinan þátt í að móta“ EES-regluverkið. Við tökum þann þátt sem við viljum á því stigi þegar reglurnar eru mótaðar og höfum strax á fyrstu stigum rétt og tækifæri til að koma að okkar sjónarmiðum og fyrirvörum. Öll þessi hagsmunagæsla hefur stóreflst á undanförnum misserum þrátt fyrir að áhrifamenn í stjórnmálum og lögfræði keppist við að tala hana niður af því að þeir telja það henta málstað sínum í þágu ESB-aðildar að gera lítið úr gildi hennar.

Það er ekki til marks um vilja til að ræða samskipti okkar við ESB „af yfirvegun og festu“ að upphefja sönginn um að við yrðum betur sett vegna ákvarðana á vettvangi ESB innan sambandsins en með þann einstæða samning sem EES-samningurinn er. Nú þegar 30 ár eru liðin frá því að samningurinn tók gildi sameinast þeir um að gera lítið úr honum sem vilja slíta samningnum og fjarlægjast ESB og hinir sem vilja ganga í ESB.

Það er engin tilviljun að hvergi í áramótagreinum stjórnmálamanna er hvatt til ESB-aðildar. Einn formaður minnir á „að þjóðin fái að ráða hvort halda eigi áfram með aðildarviðræður að ESB“.