16.2.2023 9:47

Veflokun Borgarskjalasafns

Vefir safnsins hafi legið niðri síðan í nóvember 2022 eftir að netárás var gerð á þá. Vefirnir eru að mestu leyti frá árunum 2007 til 2009.

Reykjavíkurborg starfrækir skrifstofu þjónustu og umbreytinga sem innleiðir þjónustustefnu borgarinnar, kennslu, ráðgjöf, hugmyndavinnu og þróun stafrænna lausna. Skrifstofan vinnur verkefni „þvert á borgina“ og störf hennar á að aðlagast þörfum hvers verkefnis fyrir sig. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir að tilgangur skrifstofunnar sé skýr: að setja notandann alltaf í fyrsta sæti og gera alla þjónustu borgarinnar aðgengilega, skiljanlega og einfalda.

Þá segir einnig að á árinu 2019 hafi verið lagður grunnur að nýrri deild innan Reykjavíkurborgar sem sérhæfi sig í vinnslu og hagnýtingu gagna. Markmið deildarinnar séu tvíþætt: Annars vegar að geyma og samrýma tölulega gögn borgarinnar þannig þau séu rétt og aðgangsstýrð. Hins vegar setja gögn borgarinnar fram á aðgengilegan og myndrænan hátt, þróa skýrslur, framkvæma tölfræðigreiningar og þróa tölfræðilíkön.

Geymsla_1_storÚr Borgarskjalasafni (mynd Reykjavik.is).

Meðal stofnana borgarinnar sem hafa lagt sig sérstaklega fram um stafræna þjónustu við þá sem vilja afla sér stafrænna upplýsinga er Borgarskjalasafnið. Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður og samstarfsfólk hennar hefur sýnt lofsvert frumkvæði við að ljósmynda frumgögn í safninu og gera þau aðgengileg á netinu.

Í Morgunblaðinu í dag (16. febrúar) er frétt um að vefir safnsins hafi legið niðri síðan í nóvember 2022 eftir að netárás var gerð á þá. Vefirnir eru að mestu leyti frá árunum 2007 til 2009. Í fréttinni segir að þeir hafi verið orðnir tæknilega úreltir á ýmsan hátt, m.a. hafi ekki verið hægt að leita innan þeirra.

Guðmundur Magnússon blaðamaður skrifar fréttina um lokaða aðganginn að Borgarskjalasafninu en hann hefur undanfarin ár ritað bækur um sagnfræðileg efni og segir um vefi Borgarskjalasafnsins:

„Þar hefur verið hægt að nálgast mikinn fjölda frumgagna um söguleg efni sem ljósmynduð hafa verið á undanförnum árum með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Meðal efnis hafa verið skjalaskrár, íbúaskrár, elstu skjöl borgarinnar, brunabótavirðingar og gömul jólakort. Enn fremur hafa verið útbúnir sérvefir um ævi og störf þriggja stjórnmálaforingja, Bjarna Benediktssonar, Ólafs Thors og Björns Þórðarsonar, þar sem hægt hefur verið að skoða sendibréf, dagbækur, ljósmyndir og fleira. Efnið um Bjarna, Ólaf og Björn er komið frá fjölskyldum þeirra.“

Í fréttinni segir að þrátt fyrir netárásina og niðurlagningu vefsins sé efnið á vef Borgarskjalasafnsins ekki glatað og að mestu eða öllu leyti aðgengilegt á vefsafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns, á slóðinni vefsafn.is.

Augljóst er að skrifstofa þjónustu og umbreytinga hjá borginni sér ekki ástæðu til að upplýsa á vefsíðu Reykjavíkurborgar hvernig nálgast megi vefi Borgarskjalasafns í þessu vandræðaástandi. Vefirnir hafa nýst „fróðleiksfúsum almenningi, námsfólki og fræðimönnum um árabil,“ segir í frétt blaðsins..

„Við vonumst til að nýr vefur komist í loftið á næstum vikum. Þangað til er hægt að nálgast gögn á vefsafninu,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður.