5.8.2020 10:12

Vaxtarbroddur í varnarstöð

Í gömlu varnarstöðinni er nú fjölþætt hverfi sem vex og dafnar samhliða umsvifunum á Keflavíkurflugvelli, í raun ótrúlegur vaxtarbroddur.

Í Morgunblaðinu (ViðskiptaMogga) birtist í dag (5. ágúst) frásögn Þórodds Bjarnasonar blaðamanns um þann hluta athafnasvæðis bandaríska varnarliðsins sem fór á almennan markað eftir brottför liðsins 30. september 2006. Ákveðið var að hluti af svæðinu yrði öryggissvæði á forræði utanríkisráðuneytisins og þar fer Landhelgisgæsla Íslands nú með daglega umsýslu.

Svæðið sem blaðamaðurinn fer um heitir nú Ásbrú og er hverfi í Reykjanesbæ. Rammaskipulag fyrir Ásbrú gerir ráð fyrir allt að átján þúsund manns á svæðinu árið 2050.

Nú 14 árum eftir brottför varnarliðsins vinnur Reykjanesbær að þróun svæðisins í samvinnu við tvo einkaaðila: Heimavelli og Ásbrú ehf. sem keypti 26 atvinnueignir á svæðinu fyrir fimm milljarða króna árið 2016. Síðan hefur Ásbrú ehf. fjárfest þar fyrir fjóra milljarða.

Keflavikurflugvollur_uppbyggingBandaríkjamenn lögðu Keflavíkurflugvöll í síðari heimsstyrjöldinni og var hann formlega tekinn í notkun í mars 1943. Þessi mynd er tekin af aðsetri hermanna við völlinn árið 1944. Þar er nú hverfið Ásbrú í Reykjanesbæ.

Aðsetur fasteignaþróunarfélagsins Ásbrúar ehf. er í Eldvörpum, fyrirtækjahóteli sem hýsir skrifstofur 17 annarra fyrirtækja, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki og öryggisfyrirtæki svo einhver séu nefnd, segir blaðamaðurinn. Í öðru svipuðu húsi verður frístundastarf fyrir eldri borgara og annað fyrirtækjahótel. Þarna er nýsköpunarfyrirtækið Geo Silica sem nýtir affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun til framleiðslu kísilsteinefna. Nýsköpunarfyrirtækið Algalíf sem framleiðir fæðubótarefni úr þörungum er einnig á svæðinu.

Ásbrú ehf. keypti 500 íbúðir og hefur selt tæplega 150. Í einu húsi félagsins var kvikmyndaverið Atlantic Studios en þar er nú Borgarplast til húsa. Fyrirtækið framleiðir fiskikör og frauðkassa fyrir sjávarútveg og fiskeldi, en einnig húsaeinangrun í sökkla og þök og hverfissteyptar fráveitulausnir eins og rotþrær sem og olíuskiljur og fituskiljur, brunna, vatnstanka og heita potta. Þá er unnið að endurgerð húss sem mætti nýta fyrir 29 iðnaðarbil.

Þóroddur Bjarnason segir leigufélagið Heimavelli enn umsvifameira félag í gömlu varnarstöðinni en Ásbrú ehf. Heimavellir er með 750 eignir á Ásbrú. Allt frá 40 fermetra stúdíóíbúðum upp í 210 fermetra sex herbergja blokkaríbúðir. Á skipulegan hátt er unnið að endurbótum á þessum eignum.

Eftir brottför varnarliðsins setti alþingi lög um þróunarfélagið Kadeco (Keflavík Airport Development Company). Skyldi það koma eignum í nýtingu og standa að þróun landsins. Hvort tveggja hefur gengið eftir. Allar eignir á svæðinu eru nú í fyrsta sinn í einkaeign og skipulag til ársins 2050 hefur verið samþykkt.

Á Ásbrú er aðsetur Keilis, alhliða menntafyrirtækis í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Keilir kom til sögunnar árið 2007 og þaðan hafa útskrifast um 3.000 nemendur.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að á árinu 2019 hafi náðst samkomulag við eiganda svæðisins, íslenska ríkið, um nýtingu þess:

„Nú eru mikil tækifæri þarna til að skipuleggja til langrar framtíðar. Svona svæði eru þekkt erlendis sem Airport City eða Aeropolis. Þau byggja á því að flugið sé fimmta samgöngubyltingin. Fyrst voru það vegir, svo siglingar og hafnir, þá járnbrautir, svo komu hraðbrautirnar og loks flugvellirnir. Í öllum helstu borgum í dag eru stórir flugvellir. ... Það er mjög mikilvægt að fá einstaklinga sem eigendur inn á svæðið. Með því batnar umgengni og andrúmsloft á svæðinu.“

Í gömlu varnarstöðinni er nú fjölþætt hverfi sem vex og dafnar samhliða umsvifunum á Keflavíkurflugvelli, í raun ótrúlegur vaxtarbroddur.