20.11.2024 12:11

Vaxtalækkun - Viðreisn úti að aka

Er þessi undarlega blekking frambjóðanda Viðreisnar aðeins enn eitt dæmið um hve vesæl gagnrýnin á efnahagsstefnuna er.

Allir sem horfa hlutlægt á mál hljóta að fagna því að stýrivextir lækkuðu í morgun, 20. nóvember, úr 9% í 8,5%.

Í Peningamálum, riti Seðlabanka Íslands, segir í tilefni af vaxtalækkuninni að verðbólga hafi mælst 5,1% í október og hún hafi minnkað um næstum 3 prósentur frá því í október í fyrra. Verðbólga án húsnæðis hafi minnkað enn meira og undirliggjandi verðbólga þokist áfram niður. Þá hafi verðbólguvæntingar að sama skapi lækkað á flesta mælikvarða. Spáð er að verðbólga fari undir 3% á fyrri hluta árs 2026 og verði komin í markmið um mitt það ár.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir á Facebook í dag: „Það er að ganga eftir, verðbólgan er í frjálsu falli, hún er að „húrrast niður“ eins og greiningaraðilar hafa orðað það.“ Og einnig: „Allir flokkar lofa lækkun vaxta en ákvörðun dagsins sýnir að það er að takast á okkar vakt. Gætum þess að setja árangurinn ekki í uppnám með ódýrum töfralausnum, sama hvaða nafni þær eru kallaðar.“

Þessi orð eru áminning til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins um að þeir verði að breyta um kúrs í kosningabaráttunni og hætta söng sínum um að undir forystu flokksins sé fylgt efnahagsstefnu sem skilar ekki árangri og að þeir hafi eitthvað betra að bjóða.

1530313Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kynnir vaxtalækkuna 20. nóvember 2024 (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Neikvæðasta afstaðan þegar betur horfir birtist eins og svo oft áður hjá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, oddvita Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hún finnur alltaf tilefni til nöldurs ef vel gengur og nú segir hún að ríkisstjórnin hafi „beinlínis kynt undir verðbólgu t.d. með því að leyfa ólöglegt verðsamráð á markaði“ og vísar þar til breytinga á búvörulögunum sem alþingi samþykkti 21. mars 2024 og voru lögin gefin út 5. apríl 2024.

Þorbjörg Sigríður segir: „Þessi lagasetning ríkisstjórnar skilaði sér auðvitað lóðbeint í hærra matarverði fyrir allt fólk í landinu.“ Staðreyndin er hins vegar sú að lækkun verðbólgu komst einmitt á skrið eftir að lögin voru samþykkt.

Er þessi undarlega blekking frambjóðanda Viðreisnar aðeins enn eitt dæmið um hve vesæl gagnrýnin á efnahagsstefnuna er. Viðreisn væri nær að líta til skortsstefnunnar í lóðamálum sem flokkurinn hefur staðið að í Reykjavík og leitt hefur til hækkunar á húsnæðisverði og verið olía á verðbólgubálið.

Það fer minna fyrir tali Viðreisnar um upptöku evru núna en fyrr á kjörtímabilinu. Telur flokkurinn þetta gamla höfuðstefnumál sitt ekki atkvæðavænt um þessar mundir. Þess í stað er reynt að ná til kjósenda með innantómum frösum eins og þeim sem sagt er frá hér að ofan.

Agnar Tómas Möller fjárfestir ritar grein í viðskiptablað Morgunblaðsins í dag undir fyrirsögninni: Mýtan um hávaxtakrónuna.

Þar minnir hann á að hér hafi verið 51% kaupmáttaraukning samanborið við 4% á evrusvæðinu og hér sé helmingi minna atvinnuleysi að jafnaði en á evrusvæðinu. Samanburður á vaxtastigi á Íslandi við evrusvæðið sé með öllu marklaus í ljósi ólíkrar þróunar hagkerfanna. Hann segir ekkert benda „til að krónan sé sérstakur áhrifavaldur hærra vaxtastigs á Íslandi“.