18.11.2020 10:32

Varúð þrátt fyrir bóluefni

Reynslan hér og annars staðar kennir hins vegar að ekki má slaka á ráðstöfunum á borð við tveggja metra regluna, handþvott og grímunotkun.

Frétt efst á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 18. nóvember ber fyrirsögnina: Lausn handan við hornið. Fréttin snýst um að bólusetning gegn kórónuveirunni gæti hafist hér á landi í janúar eða febrúar Starfshópur vinni að útfærslu á fyrirkomulagi við dreifingu bóluefnis. Fyrirtækið Distica sjái um dreifinguna. Fari fram sem horfi megi gera ráð fyrir að fyrstu skammtar af bóluefni við kórónuveirunni berist hingað til lands innan fárra mánaða. „Þannig er allt eins líklegt að hægt verði að hefjast handa við að bólusetja landsmenn í janúar eða febrúar á næsta ári,“ segir í fréttinni.

Þessi frétt er reist á heimsfréttum um að tvö bóluefni risafyrirtækja hafi reynst vel á tilraunastigi, annað veiti 90% vörn gegn veirunni hitt rúmlega 94% vörn. Fréttirnar vekja bjartsýni. Reynslan hér og annars staðar kennir hins vegar að ekki má slaka á ráðstöfunum á borð við tveggja metra regluna, handþvott og grímunotkun. Þetta er vörn hvers og eins og til þess fallin að skapa traust í samskiptum manna samhliða því sem slakað er á öðrum boðum og bönnum. Hér hefur verið unnt að rekja og finna rætur smita á þann hátt að unnt er að stjórna gagnaðgerðum á annan hátt en að setja allt þjóðlífið í þrönga fjötra.

Istockphoto-1205972800-612x612Bretinn David Nabarro er annar forstjóra Imperial College Institute of Global Health Innovation og sérstakur COVID-19-fulltrúi forstjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Hann vill að ofangreindum þríþættum varúðarráðstöfunum sé fylgt „enn í 12 mánuði og hugsanlega lengur“. Það muni taka að minnsta kosti þann tíma að áhrif bólusetninga skili viðunandi árangri. Nabarro hefur gagnrýnt ýmsar harðar ráðstafanir stjórnvalda gegn veirunni og hann sagði þriðjudaginn 17. nóvember við vefsíðuna Politico að hann teldi ólíklegt að þjóðir létu bjóða sér þriðju „samfélagslokunina“ á næsta ári. Þá hefur hann miklar efasemdir um réttmæti þess að beita sektum til að knýja fólk til að viðra bannreglur.

Hér hefur með markvissum aðgerðum tekist að hefta útbreiðslu veirunnar í þriðju bylgju hennar. Afleiðingar bylgjunnar eru sérstaklega sorglegar vegna þess sem Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir lýsir svo í Morgunblaðinu í dag:

„Þungbærum kafla í sögu Landakotsspítala er nú að ljúka, þar sem tæplega fimmtíu sjúklingar sýktust af lífshættulegri veirusýkingu og fimmti hver galt með lífi sínu. Einnig sýktust liðlega fimmtíu starfsmenn og veiktust nokkrir þeirra mjög alvarlega. Það er engin betri samlíking til en að um náttúruhamfarir hafi verið að ræða, á pari við snjóflóð, jarðskjálfta eða sinueld. Það mildaði sársaukann að skynja einstaka starfsgleði og samtakamátt starfsmanna Landspítalans í þessari snörpu baráttu.“

Vegna þessa eiga margir um sárt að binda án þess að réttlæti sakfellingar í garð þeirra sem gættu öryggis á spítalanum. Eftir snjóflóðin miklu var ráðist í gerð varnargarða víða um land og er framkvæmdum ekki enn lokið aldarfjórðungi eftir flóðin. Það verður einnig dreginn lærdómur af COVID-19-hamförunum en enn um sinn verðum við að virða grunnreglurnar þrjár þegar við fetum okkur vonandi til meira frelsis og dafnandi þjóðlífs.