Varnir úr skúffu í ráðuneyti
Eðli málsins samkvæmt snúast störf varnarmálaráðuneytis um hernaðarleg málefni en hér hefur ekki verið stigið skref í átt að íslenskum her.
Í lokaumræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna í RÚV að kvöldi föstudagsins 29. nóvember véku stjórnendur aðeins að stöðu Íslands í heiminum á stríðstímum í Evrópu og báðu um álit stjórnmálamannanna. Þau voru almenns eðlis.
Eins og sagt var frá hér fimmtudaginn 27. nóvember birti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra þann dag samantekt um stöðu varnar- og öryggismála í lok kjörtímabilsins. Þar birtist heildarmynd af því hve náin pólitísk samskipti um varnarmál hafa þróast milli lýðræðisríkjanna í okkar heimshluta eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Minna er fjallað um beinar aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda eða stofnana þeirra enda ekki beint í verkahring diplómata í utanríkisráðuneytinu að sinna verkefnum á aðgerðavettvangi.
Ratsjárstöðin á Bolafjalli við Bolungarvík – myndin birtist á vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands sem annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins.
Í samantektinni segir að á grundvelli þjónustusamnings feli utanríkisráðuneytið varnarmálasviði Landhelgisgæslu Íslands framkvæmd varnartengdra rekstrarverkefna á Íslandi. Í umboði ráðuneytisins annast gæslan rekstur íslenska loftvarnakerfisins, tekur þátt í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins og sér um framkvæmd gistiríkisstuðnings. Þá kemur einnig fram að utanríkisráðuneytið hefur samið við embætti ríkislögreglustjóra um úrvinnslu upplýsinga og útgáfu öryggisvottana fyrir ráðuneytið.
Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur verið efld, segir í samantekt ráðherrans, með því að fá til starfa sérfræðinga með fjölbreyttan bakgrunn og þar starfi einnig fulltrúar og tengiliðir frá ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslunni og netöryggissveitinni CERT-IS. Þetta hafi aukið viðbragðsflýti og bætt upplýsingaflæði og stöðuvitund. Þá segir að um þessar mundir starfi um 100 manns beint eða óbeint við varnarmál á vegum Íslands, hérlendis og erlendis.
Arnór Sigurjónsson starfaði um árabil að varnarmálum innan utanríkisráðuneytisins og stjórnaði meðal annars varnarmálaskrifstofu þess. Hann segir í Morgunblaðinu í dag (30. nóv.) að nú sé sú stund upp runnin að stofna þurfi „sérstakt varnarmálaráðuneyti sem annast varnir landsins, framkvæmd þeirra og hefur fjármagn til að takast á við þær áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir“. Það dugi ekki lengur að þessi málaflokkur sé „skúffa í utanríkisráðuneytinu“, hann rúmist ekki þar. Það sé ekki hægt að skipta varnarmálum upp á milli þriggja ráðuneyta, þ.e. utanríkis-, dómsmála- og forsætisráðuneytis.
Kæmi varnarmálaráðuneyti til sögunnar yrði málum skipt milli fjögurra ráðuneyta í stað þriggja. Eðli málsins samkvæmt snúast störf varnarmálaráðuneytis um hernaðarleg málefni en hér hefur ekki verið stigið skref í átt að íslenskum her. Á hinn bóginn styðst utanríkisráðuneytið við aðgerðastofnanir sem starfa á vegum dómsmálaráðherra enda eru þær borgaralegar.
Fyrsta rökrétta skrefið til að styrkja aðgerðaþáttinn af hálfu íslenska ríkisins væri að stórefla hann og sameina innan dómsmálaráðuneytisins.