10.2.2019 10:30

Varndvirkni í Sviss – hroðvirkni í Ráðhúsinu

Vönduð vinnubrögð við framkvæmd kosninga er grunnþáttur lýðræðislegra stjórnarhátta.

Tölvuþrjótar og áhugamenn um netöryggi hljóta að fylgjast af athygli með keppni á vegum svissneska ríkisins. Hún felst í því að sá sem getur brotist inn í nýtt rafrænt kosningakerfi Sviss á rétt á allt að 150.000 svissneskum frönkum (18 m. ísl. kr.) í verðlaun.

Keppnin stendur yfir í Sviss frá 25. febrúar til 24. mars og hver sá sem vill sýna og sanna hæfni sína til tölvuinnbrots getur tekið þátt í henni með því að skrá sig á https://onlinevote-pit.ch. Skráningarfrestur er til 25. febrúar.

4db6beff7c1b2e01353ba1c1985e97059e32fd5eb93d0766e32d9e33cc3ef2d5Fjárhæðin skiptist þannig að hæstu verðlaunin, 50.000 sv. frankar (6 m.ísl.kr.) renna til þess sem getur fiktað við talningu atkvæða án þess að eftir því sé tekið.

Þeir sem fikta við einstök atkvæði án þess að kjósendur eða kjörstjórnir taki eftir því fá 30.000 til 50.000 sv. fr.

Lægri verðlaun koma í hlut þeirra sem geta brotist inn í kerfið og fiktað við það í minna mæli en að ofan er getið.

Svissnesk yfirvöld vilja með þessu auka traust kjósenda og annarra í garð kosningakerfisins. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru snar þáttur í stjórnkerfi Sviss. Markmið ríkisins er að gera allt sem í þess valdi stendur til að stuðla að trú kjósenda á að rétt sé að málum staðið.

Í ýmsum svissneskum kantónum hafa rafrænar atkvæðagreiðslur verið á tilraunastigi frá árinu 2004. Í fyrra boðaði svissneska ríkið að þessi háttur við að greiða atkvæði ætti að standa jafnfætis för á kjörstað og póstatkvæðagreiðslu innan tveggja ára.

Ótti margra kjósenda við rafrænar kosningar og dæmi um fikt og falsanir tengdar þeim hafa haldið aftur af mörgum þegar þessi kostur er ræddur. Vönduð vinnubrögð við framkvæmd kosninga er grunnþáttur lýðræðislegra stjórnarhátta.

Nú liggur fyrir að markvisst var vegið að öryggi á þessu sviði af meirihluta Samfylkingar, VG og pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í maí 2018.

Greinilegt er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og samstarfsmenn hans í borgarstjórn Reykjavík ætla að sópa alvarlegum athugasemdum Persónuverndar um lögbrot vegna kosninganna undir teppið. Að meirihlutanum nú standa sömu flokkarnir og í maí 2018 auk Viðreisnar. Formennska í borgarráði er nú í höndum þess flokks. Formaðurinn hefur tekið að sér aðalhlutverk í hópnum sem hefur allar aðfinnslur um brot á lögum að engu. Sýndarmennska kemur í stað vandaðra vinnubragða á borð við þau sem svissnesk yfirvöld sýna.